Toyota innkallar 2.587 bíla
Toyota á Íslandi hefur tilkynnt um innköllun á 2.587 bílum til lagfæringar á þrennskonar ágöllum: Páll Þorsteinsson upplýsingastjóri Toyota á Íslandi segir við fréttavef FÍB að í fyrsta lagi verði skipt um rafleiðslur í stýri. Talin er hætta á að leiðslurnar geti skemmst með tímanum. Leiðslur þessar tengjast búnaði sem virkjar loftpúða bílanna þegar slys á sér stað. Í öðru lagi verður stýrisstöng í Toyota RAV og Hilux athuguð og festing endurbætt ef þörf reynist. Í þriðja lagi verður skipt um gorm í færslubrautum undir framsætum Toyota Yaris bíla. Ekki mun vitað um dæmi þess að neinn ofantaldra ágalla hafi valdið slysum.
Á heimsvísu er Toyota nú að innkalla alls um á sjöundu milljón bíla af samtals 27 gerðum sem margar hverjar eru ekki og hafa aldrei verið á markaði hér á landi.