Toyota Lundúnataxi

Svörtu (oftast) Lundúnaleigubílarnir eru gamalgróið einkennismerki borgarinnar og bara góðir til síns brúks. Það er ágætt að stíga inn í þá og út, plássið er gott í þeim og vel fer um farþegana. Bílarnir eru liprir í umferðinni og leggja vel á þannig að auðvelt er að snúa við á þröngum götum án þess að þurfa að stansa og bakka.

http://www.fib.is/myndir/Lontont1.jpg

London-taxi bílarnir hafa  lengstum verið byggðir í Bretlandi og við þá sögu komið ýmsar þekktar bílaverksmiðjur fyrri tíðar, eins og Austin, British Leyland og Carbodies. Síðustu árin hafa mis líkar stælingar af Lundúnataxanum orðið til, m.a. í Kína og nú síðast á bílasýningunni í Tokyo í Japan og er sú frá Toyota.

Þessi Lundúnaleigubíll frá Toyota er hugmyndarbíll en greinilega mjög innblásinn af Lundúnaleigubílnum. JPN Taxi Concept heitir bíllinn. Hann er 4,35 m að lengd, breiddin er 1,70, hæðin er sömuleiðis 1,70 og lengd milli hjólamiðja er 2,75. Að ytra útliti svipar honum mjög til Lundúnataxans en allar línur eru þó mýkri. Útispeglunum hefur verið komið fyrir á frambrettunum sem minnir á ýmsa breska bíla fyrri tíðar, t.d. Land Rover jeppann o.fl.

Hið innra er allt með áþekku móti og í bresku leigubílunum nema að hönnun og frágangur er með fínlegra móti. En aftursætið er fyrir þrjá og til viðbótar eru tvö afturvísandi fellisæti þannig að alls tekur bíllinn fimm farþega. Ökumaðurinn er aðskilinn frá farþegarýminu með plexiglervegg aftan og til hliðar við sig.

Ekkert er víst að að þessi bíll verði nokkru sinni fjöldaframleiddur fyrir heiminn. Um það segir ekkert af hálfu Toyota.