Toyota með hræódýran bíl í pípunum?
Katsuaki Watanabe.
-Ódýrt er ekki nóg, hræódýrt skal það vera. Toyota verður að hugsa róttækt, temja sér nýja hugsun til að koma til móts við þörfina fyrir ódýran bíl handa ört vaxandi bílamarkaði í þróunarlöndum.- Þetta er inntakið í viðtali breska blaðsins Financial Times við stjórnarformann Toyota, Katsuaki Watanabe.
Watanabe sagði að það krefðist nýhugsunar að byggja mjög ódýan bíl og það kallaði á róttæka hugsun í efnisvali, hönnun og uppbyggingu ef takast á að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Það getur orðið nauðsynlegt að þróa ný hráefni til bílasmíði til að gera þetta mögulegt og ef svo reynist, verður það gert, sagði Watanabe.
En hversu ódýrt er hræódýrt í þessu samhengi? Því svarar Watanabe þannig að það sé bíll sem er seldur á læggra verði en Renault/Dacia Logan sem framleiddur er í Rúmeníu og seldur í talsvert stórum stíl í Rússlandi m.a. Ódýrasta gerð Logan kostar 7.500 evrur eða um 670 þúsund ísl. krónur.
Watanabe sagði ennfremur að vel mætti hugsa sér að bjóða hræódýran bíl til sölu víðar en á mörkuðum þróunarlanda. Hann ræddi ekki sérstaklega um öryggisþáttinn en mjög ódýrir bíiar eru einmitt oftar en ekki ódýrir vegna þess að þeir eru án margskonar öryggisbúnaðar sem telst nauðsynlegur í nútímabílum.
Þetta er í annað sinn sem Watanabe talar opinberlega um nýjan ódýran bíl. Það er talið þýða það að Toyota sé þegar langt komin með að þróa slíkan bíl og ekki sé langt í að hann verði frumkynntur.