Toyota og Isuzu leggja á ráðin með dísil-tvinnbíl

http://www.fib.is/myndir/ToyotaPrius.jpg
Toyota Prius - með dísilvél 2010?

Toyota og Isuzu samvinnan mun innan tíðar eða um 2010 skila sér í nýjum tvinnbílum með dísilvél í stað bensín-„ljósamótorsins“ sem þekktur er í Toyota Prius. Í frétt hér á FÍB vefnum í gær var greint frá nýbyrjuðu samstarfi Toyota og Isuzu, en það sem Toyota helst væntir sér af samstarfinu er þróun og aðgengi að nýjum dísilvélum. Dísilvélar eru nauðsynlegar fyrirtækinu til að treysta sig í sessi á fleiri markaðssvæðum, ekki síst í Evrópu.

Það sem helst hefur verið dísiltvennubílum til trafala hingað til er hávaði og titringur frá dísilvélinni þegar hún fer í gang og þegar hún slekkur á sér. Toyota og lúxusdeildin, Lexus hafa því einbeitt sér að því að hafa bensínvélar í tvinnbílunum en haft dísilvélar í litlum og meðalstórum sendi- og vörubílum á heimamarkaðinum, Japan. Slíkir bílar eru einkum notaðir í borgum og þéttbýli. Í þeim flokki bíla eru kröfur notenda um þægindi ekki alveg eins harðar.