Toyota Prius er bíll ársins 2009-2010 í Japan
Á bílasýningunni í Tokyo sem nú stendur yfir, hefur val japanskra bílablaðamanna á bíl ársins í Japan verið tilkynnt. Bíll ársins í Japan er hinn nýi Toyota Prius. Þá var einnig kosið um bíl ársins í flokki innfluttra bíla og efstur varð Volkswagen Golf.
Reglurnar um val á bíl ársins í Japan geta vart einfaldari verið. Það er dómnefnd rúmlega 60 bílablaðamanna sem grandskoðar, vegur og metur allar nýjustu gerðir bíla á Japansmarkaði sem fram koma á tímabilinu frá 1. nóvember til og með 1. október árið eftir. Þótt 1. nóvember sé ekki enn upp runninn eru Japanirnir búnir að fara yfir gögn bílablaðamannanna og reikna út stigin og ljóst er að ekert getur breytt heildarniðurstöðunni semer sú að þriðja kynslóð Toyota Prius er bíll ársins í Japan 2009/2010 og í öðru sæti er Honda Insight.
Honda Insight. Í 2. sæti í Japan sem bíll ársins. |
Nýi Priusinn, þriðja kynslóð þessa fyrirrennara og fyrirmyndar blendings- eða tvíorkubílanna er þegar kominn til Íslands og hefur FÍB blaðið reynsluekið honum og verður umfjöllun um reynsluaksturinn í næsta FÍB blaði sem prentað verður um miðjan nóvembermánuð. Óhætt er að láta það uppiskátt hér að nýi Priusinn er miklu meiri og betri akstursbíll en eldri gerðirnar voru. Framfarirnar í þeim efnum eru umtalsverðar. Prius 3 kom á heimamarkað í Japan í sumarbyrjun á þessu ári og hefur verið söluhæsti bíllinn í fimm mánuði samfleytt. Í septembermánuði einum seldust t.d. 31 þúsund Priusbílar sem mun vera met.