Toyota reisir nýja dreifingarmiðstöð á Spáni
Nýjar Toyotur bíða útskipunar.
Toyota hefur ákveðið að reisa nýja dreifingarmiðstöð fyrir bíla og varahluti í hafnarbænum Sagunto í Valencia-héraði á Spáni. Kjarninn í miðstöðinni verður hvorki meira né minna en 200 þúsund fermetra stór lagerbygging.
Ekki á að tvínóna við hlutina því að þessi nýja miðstöð á að verða tilbúin og taka til starfa næsta vor – vorið 2008.
Kostnaðaráætlunin við sjálfa miðstöðina er upp á 24 milljónir evra en því til viðbótar verður eytt um 10 milljón evrum í að ganga þannig frá hafnarmannvirkjum að þau geti annað þeim umsvifum sem þarna verða.
Sjálfvirkni verður allsráðandi í þessari nýju miðstöð og einungis rúmlega 100 manns munu starfa við hana að sögn spænska blaðsins El Mundo. Um hendur þessara hundrað starfsmanna munu hins vegar fara árlega um 100 þúsund nýir bílar.