Toyota söluhæsta tegundin 2009
Í kjölfar hruns bankakerfisins hrundi sala nýrra bíla eftir mikinn innflutning árin á undan. Þetta má glöggt lesa úr tölum Umferðarstofu um nýskráningar innfluttra bíla, nýrra sem notaðra. Þegar rýnt er í þessar tölur kemur í ljós að Toyota er söluhæsta tegundin meðal nýrra bíla en hefur tapað umtalsvert markaðshlutdeild sem var lengi um fjórðungur. Athyglisvert er að Suzuki hefur skotist upp í annað sætið og eru 16,8 prósent nýskráðra bíla á Íslandi sl. ár af þeirri tegund.
Fimm söluhæstu tegundir fólksbíla og markaðshlutdeild á síðasta ári eru eftirfarandi:
Númer | Tegund | Fjöldi | Hlutdeild |
1 | Toyota | 379 | 18,8% |
2 | Suzuki | 339 | 16,8% |
3 | Subaru | 265 | 13,1% |
4 | Hyundai | 202 | 10% |
5 | Nissan | 183 | 9,1% |
Ljóst er af þessum tölum að mikil breyting hefur orðið á innflutningi bíla og markaðshlutdeild einstakra tegunda talsvert riðlast frá því sem var um allmörg undangengin ár. Samdrátturinn er vitanlega gríðarlegur en innflutningurinn á síðasta ári var einungis 16,7 prósent af meðaltali síðustu 10 ára og 10,7% af innflutningnum 2005. Sérstaka athygli hlýtur að vekja að Suzuki er í öðru sæti og með lang minnstan samdrátt milli ára.
Ef litið er á einstakar undirtegundir er mest flutt inn af Suzuki Swift eða 151 bíll, af Subaru Legacy 122 bílar, Toyota Yaris 62 bílar og ef skoðaðir eru jeppar þá er mest flutt inn af Suzuki Grand Vitara eða 115 bílar, Nissan Patrol GR 56 bílar og af Toyota Land Cruiser 120 eru líka fluttir inn 56 bílar samkvæmt tölum Umferðastofu.
Um það bil þriðjungur nýrra fólksbifreiða eru dísilbílar og um 2/3 bensínbílar. Um helmingur bílanna er fjórhjóladrifinn og 30 bílar eru knúnir öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu.
Á tímabilinu 1999 til 2008 voru fluttur inn 166.731 bíll. Í árslok 2008 var fjöldi bíla á skrá á Íslandi 243,516. Gera má ráð fyrir að þó nokkur hluti bíla á skrá sé ekki í umferð. Ekki eru komnar tölur um fjölda bifreiða á skrá í lok árs 2009 en allmikið hefur verið flutt út eða er ekki í notkun, m.a. dýrari bílar. Þeir bílar sem voru á skrá í ársbyrjun skiptast á eftirfarandi hátt milli orkugjafa:
Bensín | Dísilolía | Bensín/rafm | Rafmagn | Samtals |
180.977 | 61.877 | 506 | 10 | 243.516 |