Toyota söluhæsta tegundin í Danmörku

Sala nýrra bíla í Danmörku í fyrra varð 25% minni en hún varð árð 2008. Þegar 2010 árgerðirnar voru komnar í söluumboðin virðist sem heldur hafi kreppuþunglyndinu létt af Dönum því að sala nýrra bíla jókst verulega og samdrátturinn á ársgrundvelli varð þessvegna minni en reiknað hafði verið með.  

Meðal 20 vinsælustu bílanna hjá Dönum á síðasta ári eru sex japanskar tegundir, sex þýskar, fimm franskar, tvær kóreskar og ein tékknesk. Toyota Avensis varð mest selda bílgerðin og í öðru sæti er líka Toyota með smábílinn Aygo. Systurbíll Aygo; Citroen C1 er svo í fimmta sæti en þar sem hann er nánast sami bíll og Aygo og reyndar Peugeot 107 líka og allir þar að auki byggðir í verksmiðju Toyota í Tékklandi, má segja að Toyota standi orðið traustum fótum á danska bílamarkaðinum. Séu sölutölur þessara þriggja svo lagðar saman verður heildartalan 8.499 stykki. Þessi þriggja nafna smábíll er því lang söluhæsti bíllinn á Danmörku á síðasta ári.

http://www.fib.is/myndir/Danabilar.jpg
 

Alls seldust 112.436 nýir bílar í Danmörku 2009 en það er 25% samdráttur frá árinu á undan. Árið byrjaði þokkalega en ástandið tók að versna mjög um mitt árið. Samdrátturinn stöðvaðist svo í nóvember en svo hljóp góður 37 prósenta vöxtur í viðskiptin í desembermánuði. Nú vonast innflytjendur til að það sé vísbending um betri tíma framundan á nýja árinu. 

Stór hluti desembersölunnar var reyndar til fyrirtækja sem voru að endurnýja flota sína. Samtök bílainnflytjenda í Danmörku vænta þess að sú endurnýjun haldi áfram auk þess sem einkaaðilar skipti út gömlu bílunum fyrir nýja.