Toyota stefnir á 5-10 þúsund árssölu vetnisbíla
Stjórnendur Toyota eru vissir um að vetnisrafbílar (bílar með efnarafal) verði orðnir samkeppnishæfir við hreina rafbíla fyrir árið 2030. Þetta kemur fram í viðtali í Automotive New Europe við Soichiro nokkurn Okudaira einn af æðstu stjórnendum Toyota. Hann segir að ekki sé langt í það að efnarafalsbílarnir verði einn þeirra valkosta sem bjóðast kaupendum umhverfismildra bíla.
Vetnisrafbílar virka þannig að vetni er fyllt á geyma í bílnum. Vetnið fer í gegn um efnarafal. Þar breytist það m.a. í rafstraum sem knýr rafmótor bílsins. Sá útblástur sem frá efnarafalnum kemur er algerlega mengunarlaus því hann er einungis vatnsgufa. Veruleg þróun hefur átt sér stað í gerð efnarafala undanfarin ár og hjá Toyota reikna menn með að framleiðslukostnaður þeirra muni lækka mjög frá því sem verið hefur. Það verði til þess að þegar fjöldaframleiðsla vetnisbílanna hefst á fyrri hluta ársins 2015 verði markaðurinn tilbúinn til að taka við 5-10 þúsund slíkum bílum á ári.
Toyota sýndi framleiðsluútgáfu nýja efnarafalsbílsins, FCV bílinn, á bílasýningunni í Tokyo nýlega. Bíllinn er í raun framþróun frá þeirri frumgerð vetnisbíls sem byggður var í allmörgum eintökum sem sett voru í reynsluakstur hingað og þangað um veröldina árið 2007. Kostnaðarvirði hvers eintaks þessara tilraunabíla var mjög hátt, eða tæplega 750 þúsund evrur. Áætlað kostnaðarverð nýja efnarafalsbílsins er talið verða innan við tíundi hluti þess eða um 72 þúsund evrur og er efnarafallinn, vetnisgeymar og annar tengdur búnaður um helmingur kostnaðarins.
Þessari lækkun á framleiðslu efnarafala hafa menn náð með nýrri tækni sem m.a. krefst miklu minna magns hins rándýra eðalmálms, platínu. Nýju efnarafalarnir eru auk þess miklu minni um sig en áður og ekki meiri um sig en svo að þeir komast fyrir undir framsætum FCV bílsins. Ennfremur næst umtalsverð kostnaðarlækkun með því að samnýta margskonað búnað úr Prius o.fl. tvinnbílum Toyota, svo sem rafmótora. En eftir að fjöldaframleiðsla er hafin 2015 reikna Toyotamenn með því að framleiðslukostnaður á efnarafalseiningu lækki hröðum skrefum og verði þegar fram líða stundir einungis fimmtungur þess sem hann verður við upphaf framleiðslunnar.
Tilrauna-vetnisrafbílar eru allvíða í umferð en flestir þó í Kaliforníuríki. Bílarnir eru m.a. frá Toyota sem fyrr segir en einnig Honda, Mercedes, Hyundai, Honda o.fl. Kaliforníuþing hefur samþykkt lög um að taka þátt í að setja upp a.m.k. 100 vetnisstöðvar fyrir árið 2024. Það er ekki ósvipað því sem stjórnvöld á Norðurlöndum og í Þýskalandi eru að gera í þessum málum samkvæmt samningi við fyrrnefnda bílaframleiðendur sem allir hafa boðað hafa nýja vetnisrafbíla um og eftir 2015.