Toyota undirbýr nýjan smábíl í „Smart“-flokki
Á Frankfurt bílasýningunni í fyrrahaust sýndi Toyota frumgerð eða hugmyndarbíl – Endo - sem greinilega var hugsaður til höfuðs tveggja manna borgarbílnum Smart Fortwo. Smart Fortwo nýtur talsverðra vinsælda í þéttbýlum borgum Evrópu þótt ekki hafi hann fest sig í sessi á Íslandi. Hingað til hefur Smart verið einn um hituna í sínum flokki en nú eru horfur á því að hann fái brátt sterkan keppinaut því að heimildir herma að Toyota Endo sé nú tilbúinn í framleiðslu.
Vissulega er Toyota með fjögurra manna smábílinn Aygo þegar í framleiðslu. Aygo er 340 sm langur, fjögurra sæta. Endo verður hins vegar líklegast eins og Smart, um 40 sm styttri og betur búinn til daglegrar notkunar í borgarumhverfi. Frumgerðin sem sýnd var í Frankfurt í fyrra hafði mjög sérstæðan dyrabúnað sem þarf fremur lítið pláss til að opnast vel, sem skiptir auðvitað máli í borgarþrengslunum.