Toyota úr Kópavoginum í Garðabæ
Toyotaumboðið sem um áratugi hefur verið við Nýbýlaveg í Kópavogi flytur á nýbyrjuðu ári í Kauptún í Garðabæ í húsnæði sem áður hýsti stórverslun BYKO og er skammt frá IKEA. Það skondna er að þetta verður í annað sinn sem Toyota á Íslandi býr um sig í húsnæði sem áður hýsti verslun BYKO. BYKO var einmitt áður í einu þeirra húsa við Nýbýlaveginn sem Toyota nú flytur út úr.
Með þessum flutningum kemst mestöll starfsemi Toyota undir eitt þak, en hún er nú dreifð um mörg hús í Kópavoginum, bæði við Nýbýlaveginn og á Kársnesinu, skammt frá höfninni í Kópavogi. Notaðir bílar verða þó áfram á tveimur stöðum, það er að segja á Kletthálsi í Reykjavík, eins og verið hefur, en einnig líka í nýju bækistöðvunum í Kauptúni í Garðabæ.