Toyota USA byrjar að skammta varahluti
Vefsíða Automotive News í USA greinir frá því að íhluta- og varahlutaskorts sé tekið að gæta í Bandaríkjunum í kjölfar jarðskjálftanna og hamfaranna í Japan sem lamað hefur framleiðslu hlutanna í Japan að meira og minna leyti.
Toyota Motor Sales USA sendi frá sér minnisblað til söluumboða um öll Bandaríkin á föstudag. Í því segir að þrátt fyrir að bílaframleiðslan og varahlutadreifikerfið sé að stærstum hluta orðið virkt aftur eftir fjögurra daga lokun í kjölfar náttúruhamfaranna þá hafi orðið varanlegar skemmdir hjá tilteknum undirframleiðendum varahluta sem hafi áhrif á eðlilega framleiðslu þeirra. Talin eru síðan upp 233 varahlutanúmer sem skortur verði á næstu 30 dagana og jafnvel lengur. Þessi umræddu númer ná einkum til dempara og „boddý“- og burðarvirkishluta. Þeir undirframleiðendur sem framleiða þessa hluti eru ekki nefndir í minnisblaðinu.
Umboðs- og þjónustuaðilar eru beðnir að stilla í hóf pöntunum sínum frá megin-varahlutalagerum Toyota og Lexus og sagt að þeir geti auk þess vænst þess að pantanir þeirra verði skornar niður á næstunni. En allar neyðarpantanir frá umboðs- og þjónustuaðilum verði þó afgreiddar eins fljótt og mögulegt verður.
Hver einstakur bíll er settur saman úr um það bil 30 þúsund hlutum og í varahlutaskrám Toyota í heild eru um það bil 300 þúsund varahlutanúmer að sögn Automotive News. Allir varahlutalagerar Toyota verða framvegis uppfærðir daglega til að fylgjast með hvaða hluti vantar og hvenær þeirra er von. Talsmaður Toyota í USA segir við Automotive News að í raun sé þetta ekkert nýtt í sjálfu sér. Dreifikerfi Toyota sé þannig upp byggt að það sé sveigjanlegt og þoli vel tímabundna örðugleika án þess að skorts verði nokkursstaðar vart innan þess.