Toyotabílar og eigendur í tölvu-vinasambandi

Toyota Motor Corp. vinnur að því með tölvufyrirtæki sem heitir Salesforce.com Inc, að búa til félagslegt Netsamskiptakerfi sambærilegt við Facebook og Twitter, nema að í þessu nýja kerfi hafa bíleigendur vináttusamband við bíla sína. Bílarnir eiga í gegn um þetta samskiptakerfi að geta sent eigendum eða umráðamönnum sínum vinsamleg skilaboð um að fara nú að athuga vélarolíuna og kælivatnið, eða bremsuklossana.

Samstarfssamningur Toyota, stærsta bílaframleiðanda veraldar,  og Salesforce.com er annar stórsamningurinn við tölvufyrirtæki á jafn mörgum mánuðum því í síðasta mánuði samdi Toyota við Microsoft Corp. um að smíða Internettengt viðhalds- og þjónustukerfi fyrir alla Toyotabíla hvar sem þeir eru í heiminum. Á blaðamannafundi Toyota og Salesforce.com í Tokyo í morgun sagði Akio Toyoda forstjóri Toyota að félagsleg samskiptakerfi á Internetinu væru að breyta samskiptum fólks og tjáningarmáta og bíllinn þyrfti að vera einskonar þátttakandi í þeirri breytingu. Upplýsingatækni og fjarskipti við bíla um fartölvur og farsíma væru lykilþáttur í framþróun bílsins og Toyota væri þegar búin að byggja upp eigið samskiptakerfi við umboðsaðila og ökumenn Toyotabíla.

Nýja félagslega samskiptakerfið sem nú skal smíðað hefur þegar hlotið heitið Vinir Toyota og í því eiga vinir Toyota að geta spjallað við bílana um hvað þá vanhagar um og bæílarnir geta sent eigiendum og umráðamönnum sínum skilaboð um hvaðeina sem þá vanhagar um, t.d. ef geymirinn er straumlítill og þarfnast hleðslu, ef of lint er í dekkjum eða kælivatns- og olíustaða er lág. Þetta samskiptakerfi verður viðbót við það kerfi sem þegar er orðið til hjá Toyota og fyrr er nefnt.

Kerfið verður fyrst tekið í notkun í heimalandinu Japan í rafbílum og tengiltvinnbílum en verður síðan víkkað út til alls heimsins og allra gerða Toyotabíla.