Tryggingafélögin sleppa ódýrt með samkeppnislagabrot
FÍB telur tryggingafélögin sleppa ódýrt með 20 milljóna króna sekt fyrir þátttöku samtaka þeirra (SFF) í umræðu um verðlagningu iðgjalda. Með afskiptum sínum af umræðunni voru SFF ekki að gæta eigin hagsmuna, heldur hagsmuna tryggingafélaganna. Því hefði með réttu átt að sekta tryggingafélögin. Í því samhengi skiptir máli að tvö félaganna þrýstu á SFF að réttlæta há iðgjöld bílatrygginga frekar en gera það sjálf.
Samkeppnislög heimila sektir upp á 10% eða meira af veltu þeirra sem brjóta gegn lögunum. Miðað við 80 milljarða króna veltu tryggingafélaganna á ári hefði sektin því mátt vera nær 8 milljörðum króna
Sektin sem Samtök fjármálafyrirtækja borga fyrir að níða niður umfjöllun FÍB um iðgjöld bílatrygginga miðast við veltu SFF fremur en veltu tryggingafélaganna. Sektin samsvarar veltu tryggingafélaganna í einn klukkutíma.
Tryggingafélögin hafa áratugum saman notað samtök sín til að hafa samráð um verðlagningu. Innan Samtaka íslenskra tryggingafélaga (SÍT), fyrirrennara SFF, hittust forstjórar félaganna reglulega til að stilla saman strengi og fóru ekki einu sinni leynt með það. Árið 2004 lauk viðamikilli rannsókn samkeppnisyfirvalda á samráðinu. Var þá gerð sátt við SÍT um að hætta þessari síbrotastarfsemi og ræða ekki verðlagningu eða reyna að réttlæta hana. SFF tók við hlutverki SÍT, en hefur nú verið sektað fyrir að virða ekki sáttina og brjóta gegn samkeppnislögum.
SFF hefur ekki tileinkað sér þá góðu stjórnarhætti sem ætla má af slíkum samtökum, og hvorki framkvæmdastjóri né stjórn sæta persónulegri ábyrgð vegna þeirra lögbrota sem framin voru.
Réttlæting Katrínar Júlíusdóttur framkvæmdastjóra SFF fyrir lögbrotunum er vægast sagt undarleg. Á heimasíðu SFF segist hún hafa mátt gæta sín betur í kappinu við að komast inn í „umræðu um leiðir sem leitt geta til lækkunar iðgjalda.“ Þar fer hún á stórsvigi í kringum sannleikann. Í aðsendum greinum á Vísi gerði Katrín lítið annað en reyna að réttlæta verðlagningu tryggingafélaganna. Hún átaldi FÍB fyrir gífuryrði um okur og vafasama viðskiptahætti og kallaði umfjöllunina einhliða, réttlætti eltingaleik við vísitölu, ýkti stórlega að laun og viðgerðarkostnaður hefðu hækkað, fullyrti ranglega að tjónahlutfall þyrfti að vera undir 100% til að reksturinn skili hagnaði, fullyrti að tryggingafélög gætu ekki einungis treyst á fjárfestingartekjur (þær skapa meirihluta hagnaðarins) og fullyrti ranglega að iðgjöld tryggingafélaga færu lækkkandi. Þá benti Katrín á að í Danmörku væru ekki greiddar bætur fyrir örorkumat á bilinu 1-15%. Með því að hætta slíkum bótagreiðslum hér á landi gætu iðgjöld lækkað. Slík fyrirheit eru ekki mjög trúverðug í ljósi þess að iðgjöld bílatrygginga hafa á undanförnum árum hækkað langt umfram neysluvísitölu.
Málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins
Forsaga málsins er sú að FÍB kvartaði til Samkeppniseftirlitsins í september 2021 yfir opinberu fyrirsvari SFF um verðlagningu og þjónustu tryggingafélaganna. FÍB benti á að með þátttöku sinni í umræðunni hefði SFF tekið að sér að réttlæta verðlagsstefnu tryggingafélaganna fyrir þau öll saman.
FÍB hafði töluverðan kostnað af kvörtuninni, ekki síst við að benda á ósvífnar réttlætingar og rangfærslur í greinargerð SFF til Samkeppniseftirlitsins. Engu að síður taldist FÍB ekki aðili málsins og hafði því ekkert að segja um málsmeðferðina. Í þeim gögnum frá SFF sem FÍB fékk send til kynningar voru tveir þriðju hlutar felldir út vegna trúnaðar.
FÍB telur að Samkeppniseftirlitið hafi tekið rangan pól í hæðina með því að láta þetta mál aðeins snúast um aðkomu Samtaka fjármálafyrirtækja og miðað sektina við veltu þeirra, sem er um 0,25% af veltu tryggingafélaganna. SFF hafa enga sjálfstæða hagsmuni af lögbrotinu og því hefði frekar verið við hæfi að sekta tryggingafélögin sem nota SFF sem skálkaskjól fyrir brot á samkeppnisreglum. Í 37. grein samkeppnislaga eru skýr ákvæði um að jafnt sé hægt að sekta samtök fyrirtækja og fyrirtækin sjálf. Þar stendur: „Ef brot samtaka fyrirtækja tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til.“ Hér skiptir líka máli að um endurtekið brot er að ræða á markaði sem einkennist af mikilli fákeppni og varðar neytendur miklu. Þá var ekki einungis um brot að ræða gegn samkeppnislögum heldur einnig brot gegn eldri sátt.
Sektin rennur í ríkissjóð, líkt og allar aðrar sektir hins opinbera. Það er því ríkið sem hefur ávinning af því að brotlegir eru gómaðir, en ekki þolendur brotanna. Með réttu hefði stærstur hluti sektarinnar átt að renna til viðskiptavina samráðsfyrirtækjanna. En til þess þyrfti þá að breyta lögum og er ærin ástæða til þess