Tveggja strokka Fiat 500
Hinn nýi Fiat 500, arftaki hins gamla og heimsfræga, þess sama sem bæði Ómar Ragnarsson og Michael Schumacher eiga og aka, verður eins og forverinn var um tíma – með tveggja strokka vél.
Verkfræðingar og tæknimenn Fiat í Torino eru um þessar mundir að leggja síðustu hönd á nýja vélalínu og verður minnsta vélin í henni einungis tveggja strokka. Hestöflin verða þó fleiri en voru í gömlu 500 rúmsm 13 ha. Fiat 500 vélinni því að öflugasta útfærsla nýju tveggja strokka vélarinnar verður 110 hö.
Rúmtak nýju vélarinnar verður 900 rúmsm eða svipað og í stóru mótorhjóli og verður hægt að velja milli þrigja útfærslna; 60, 90 og 110 hestafla. Eyðslan verður frá þremur til fimm lítrum á hundraðið.
Nýi Fiat 500 bíllinn kemur á markað á næsta ári en með þessari nýju tveggja strokka vél verður bíllinn fáanlegur frá árinu 2010.
Gamli Fiat 500 þótti hafa skemmtilega aksturseiginleika og góð eintök eru eftirsóttir gripir. Meðal þekktra manna sem halda upp á þessa bíla eru Ómar Ragnarsson og Michael Schumacher.