Tveggja strokka Fiatvél er bílvél ársins
Árlega veitir nefnd 76 bílablaðamanna frá 36 löndum viðurkenningu þeim bílvélum sem þykja skara fram úr öðrum. Það er bresk tæknitímaritaútgáfa sem hefur frumkvæði og umsjá með þessari verðlaunaveitingu og eru verðlaunin jafnan veitt á vélasýningunni Engine Expo sem að þessu sinni er í Stuttgart í Þýskalandi og er síðasti sýningardagur einmitt í dag. Merkasta nýjungin í bílvélum að mati nefndarinnar er að þessu sinni nýja tveggja strokka TwinAir vélin í Fiat 500. Hún er 875 rúmsm að sprengirými, 85 hö. og gefur frá sér einungis 95 grömm af CO2 á kílómetrann.
Í TwinAir vélinni er ýmis tækni og búnaður sem einungis þekkist í miklu stærri og dýrari vélum en örsmárri tveggja strokka Fiatvél. Dæmi um það má nefna undirlyftukerfi sem opnar og lokar innsogsventlum með vökvaþrýstingi og stýrt er af tölvu. Engin tímareim er í vélinni heldur ný háþróuð gerð keðju sem aldrei á að þurfa að líta á, sem þýðir stórlækkaðan viðhaldskostnað. Og þar sem vélin er einungis tveggja strokka má búast við titringi frá henni en komið er í veg fyrir hann með sérstökum jafnvægisás sem jafnar út titringnum og tryggir skjálftafrían gang á mestöllu snúningssviði vélarinnar.
Bílvélar ársins 2011 |
|
1 | Fiat 875 cc, 2ja strokka (Fiat 500) |
2 | Nissan raf-aflkerfi (Nissan Leaf) |
3 | Ford 1,6 turbo (Ford Focus, C-Max, Mondeo, Volvo V60, V70, XC70 |
4 | BMW Diesel 2ja lítra (BMW 3 Eff. Dyn) |
5 | Porsche 3,6 lítra Boxer Turbo (Porsche GT2 RS) |
6 | McLaren 3,8 lítra V8 (McLaren MP4-12C) |
En sjálf MultiAir tæknin er sérstök fyrir þá sök að hún gerir mögulegt að auka afl og tog en draga samtímis úr eldsneytiseyðslu og mengun. Þrívirkur hvarfi er við vélina og tveir lamda-skynjarar en að öllu samanlögðu gerir þetta vélina að einni hreinustu fjöldaframleiddu bílvél sem um getur og það var ekki síst það (95 g af CO2 á kílómetrann) sem mest gekk í augu dómnefnarmanna.
„Ég var efins eins og flestir aðrir áður en ég prófaði sjálfur bíl með þessari vél og það var á sinn hátt ný- gömul reynsla,“ segir bílablaðamaðurinn Matt Davis, Hann segir að sér hafi fallið hvað best í geð einfaldleikinn og smæð vélarinnar, vélarhljóðið inni í bílnum og svo sparneytnin.
Vélin er ekki stærri um sig en vél í mótorhjóli. Lengd hennar er 30,7 sm, breiddin er 50 sm og hæðin 59,6 sm. Forþjappan, eða túrbínan við hana er frá Mitsubishi sem gerir sitt til að þessi örsmáa vél skilar 85 hestöflum og 150 Newtonmetra vinnslu sem ágætlega dugar eins tonns þungum smábíl eins og Fiat 500.