Tveir af hverjum þremur sem fórust í útafkeyrslum voru ekki í öryggisbeltum

http://www.fib.is/myndir/Bilbeltid.jpg
Af um það bil 350 ökumönnum sem láta lífið í umferðarslysum í Svíþjóð á hverju ári er um helmingur með öryggisbeltin óspennt. En þegar eins bíls slysin – útafkeyrslur og ákeyrslur á fasta hluti við vegi – eru sérstaklega skoðuð kemur í ljós að hlutfall hinna óspenntu er ennþá hærra. Þetta sýnir sérstök rannsókn sænsku vegamálastofnunarinnar á dauðaslysum í umferðinni í Svíþjóð.

-Öryggisbeltin eru ennþá lang mikilvægasti lífsbjargarbúnaðurinn sem fyrirfinnst í bílum. Öryggisbeltið dregur úr líkum á dauða við árekstur um c.a. 50%. Í umferð í þéttbýli þar sem umferðarhraði er lægri en á vegum úti eru lífsverndaráhrif beltanna ennþá meiri en það, segir dr. Claes Tingvall læknir, stjórnarformaður EuroNCAP og forstöðumaður umferðaröryggisdeildar sænsku vegamálastofnunarinnar. Hann segir að loftpúðar í bílum séu mjög góð viðbót við verndarkraft öryggisbeltanna er geti aldrei komið algjörlega í stað beltanna.

Rannsóknin leiðir í ljós að af þeim u.þ.b. 350 ökumönnum sem létust í bílslysum á síðasta ári voru 46% ekki með öryggisbelti spennt þegar slysið átti sér stað. 51% þeirra karlmanna sem létust voru óspenntir  og 28%  þeirra kvenna sem létust. Af þeim 150 sem létust í eins bíls dauðaslysum voru 66% karlanna óspenntir og 22% kvennanna. Þetta bendir til þess að konur almennt séð spenni frekar beltin en karlar.