Tveir fórust í umferðarslysum um helgina
Óli H. Þórðarson formaður Umferðarráðs.
Tveir fórust í umferðarslysum í gær, sunnudag. Fyrra slysið varð snemma að morgni í Skagafirði, skammt austan við Varmahlíð. Hið síðara varð skömmu eftir hádegi við Hofgarðaá í Öræfum.
Fyrra slysið varð með þeim hætti að fólksbíll sem ekið var eftir vegi í átt að vegamótum við þjóðveg nr 1 fór út af veginum í krappri beygju. Að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins virðist ökumaðurinn hafa misst stjórn á bílnum í beygjunni og hann hafa stungist ofan í kvos utan við veginn, kastast upp úr henni aftur og hringsnúist á veginum. Þrjár stúlkur voru í bílnum og tveir piltar og ók ein stúlkan bílnum en hinar tvær voru í aftursæti bílsins ásamt öðrum piltanna. Þau sem í aftursætinu voru, köstuðust út úr bílnum og lést önnur stúlkan á slysstað en hin slasaðist alvarlega og sömuleiðis sú sem bílnum ók. Piltur sem sat í framsæti slapp lítið meiddur. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins virðist sem ekkert af fólkinu sem í bílnum var hafa verið í öryggisbelti.
Hitt dauðaslysið varð sem fyrr segir í Öræfasveit upp úr hádeginu í gærdag. Þar lét mótorhjólamaður sem var einn á ferð lífið er hann missti stjórn á hjóli sínu. Engin vitni voru að slysinu og öll tildrög þess því óljós enn, en hugsanlegt er talið að hvassviðri eða vindhviða hafi þar átt hlut að máli.
Talsvert var um óhöpp í umferðinni um helgina þótt afleiðingarnar hafi ekki orðið jafn alvarlegar og í ofannefndum tveimur slysum. Þá voru mjög margir ökumenn teknir ölvaðir um helgina. Óli H. Þórðarson formaður Umferðarráðs sagðist í samtali við fréttavef FÍB fyrir stundu vilja biðja hvern einasta mann sem nokkru sinni hefur ekið hefur undir áhrifum áfengis án þess að slys hafi af hlotist að skammast sín og þakka forsjóninni fyrir fyrir að hafa ekki valdið slysi. „Við ykkur sem enn eruð ítrekað að aka full segi ég –skammist ykkar og farið í áfengismeðferð og segið við sjálf ykkur – ég er hálfviti, ég ek fullur.“
Mótorhjólum í íslenskri umferð hefur fjölgað gríðarlega undanfarið og sagði Óli H. Þórðarson að ökumenn þeirra, sem margir eru vanir bifreiðaökumenn en byrjendur í mótorhjólaakstri og komnir um og yfir miðjan aldur, yrðu að gera sér grein fyrir því hversu ólík farartæki mótorhjól og bílar eru. Mótorhjólaökumaður verður stöðugt að lesa í veginn og umhverfið og gæta að því hvort hliðar- og sviptivinda sé að vænta framan við næsta fjall eða múla sem truflað gætu jafnvægið. Þá verða mótorhjólamenn, vegna þess hve óvarðir þeir eru, að gæta sín sérstaklega gagnvart ökumönnum bíla í umferðinni og annarri umferð, ekki síst við vega- og gatnamót.