Tvennskonar niðurstöður undirréttar í olíusamráðsmálum
Ríkisaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur þeim forstjórum Olíufélaganna sem voru við stjórn fyrirtækjanna þann tíma sem meint ólögmætt samráð félaganna um verð og viðbrögð við útboðum stóð. Forstjórarnir eru ákærðir fyrir að hafa haft ólögmætt samráð, ýmist sín í millum eða með milligöngu undirmanna sinna sem miðaði að því að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni. Hinir ákærðu eru Einar Benediktsson forstjóri Olíss, Geir Magnússon fyrrverandi forstjóri Olíufélagsins hf og Kristinn Björnsson fyrrv. Forstjóri Skeljungs.
Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem Reykjavíkurborg höfðaði á hendur olíufélögunum vegna meints skaða sem áðurnefnt samráð olíufélaganna olli borginni. Reykjavíkurborg krafðist tæplega 140 milljóna króna bóta en samkvæmt dómnum í gær skulu olíufélögin greiða rúmar 78.6 milljónir skaðabætur til borgarinnar og Strætó bs. sameiginlega. Allt eins má búast við að dómurinn í gær virki hvetjandi á mörg fyrirtæki að leita réttar síns gagnvart olíufélögunum. T.d. útiloka Guðmundur Kristjánsson forstjóri útgerðarfélagsins Brims og Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi ÍSALS það hvorugur í samtölum við Fréttablaðið í dag.
Þann 6. desember sl. féll á hinn bóginn dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem Sigurður Hreinsson á Húsavík höfðaði í samvinnu við Neytendasamtökin gegn Olíufélaginu hf – nú Keri hf. til greiðslu 180 þús. kr. skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa beðið vegna þessa sama samráðs olíufélaganna. Sigurður taldi að hann hefði þurft að greiða eldsneytið dýrara verði vegna samráðsins en hann hefði ella þurft. Sem málsgögn lagði Sigurður fram eldsneytiskaupanótur upp á 1,18 milljónir kr. og byggði kröfuna á skýrslu hagfræðingsins John M. Connor frá 2003 um miðgildi svokallaðs yfirverðs í samráðsmálum. Í því samhengi taldi hann sig hafa greitt 17-19% hærra verð fyrir eldsneyti en hann hefði gert ef eðlileg samkeppni hefði ríkt á íslenskum eldsnetismarkaði.
Héraðsdómur taldi að verulega skorti á að þessi gögn nægðu til sakfellingar og sýknaði Ker hf. af aðal- og varakröfu Sigurðar og vísaði þrautavarakröfum hans frá dómi.
Búist er við að ákæra ríkissaksóknara gegn forstjórunum þremur verði þingfest eftir áramót. Verði þeir fundnir sekir geta þeir vænst sekta og fangelsisdóma allt að þremur árum.