Tvinnbílar eru bara blekking
Wilfried Bockelmann.
Wilfried Bockelmann þróunarstjóri Volkswagen er óvenju beinskeyttur í viðtali við tímaritið Automotive Engineering International. Hann segir að tvinnbílar (bílar knúnir bæði bensín/dísilvél og rafmagnsmótor) séu blekking og væru ekki til ef ekki væru í gildi heimskuleg lög um útblástur bíla í Kaliforníuríki.
Í upphafi viðtalsins rekur Bockelmann þá vinnu sem farið hefur fram hjá Volkswagen með efnarafala og þann árangur til að draga úr mengun sem mögulegur er í sambandi við nýju TSI bílvélina sem bæði er með útblástursknúna forþjöppu og túrbínu sem sveifarás vélarinnar knýr. Þegar talið berst að tvinnbílunum er Bockelmann óvenju beinskeyttur og skefur ekki utan af hlutunum.
„Það væri ekki nokkur maður að pæla í tvinnbílum yfirleitt ef ekki væru í gildi þessi heimskulegu lög um útblástur í Kaliforníu,“ segir Bockelmann. „En við neyðumst víst til að vera með tvinnbíl til að geta yfirleitt selt bíla í Kaliforníu frá og með áramótunum 2008-2009,“ bætir hann við.
Bockelmann fjallar síðan um þá tvinnbíla sem nú eru í umferð og segir að í því samhengi að draga úr útblástursmengun séu þessir bílar að langmestu leyti þýðingarlausir við flestar aðstæður nema ef vera skyldi í Tokyo og París þar sem umferð er mjög þétt og hæg. Ekki einu sinni í þéttbýlustu borgum Bandaríkjanna séu þeir til nokkurs gagns, - borgum eins og Los Angeles og Detroit. Þar aka menn að meðaltali 30-40 mínútur til vinnu. Þar af er 5 til 10 mínútna akstur í mjög þéttri umferð í lok akstursins. Kostir tvinnbílanna vega ekki upp galla þeirra segir Bockelmann. Gallarnir eru fyrst og fremst að þeir eru þyngri og mun dýrari í framleiðslu. Vilji menn í alvöru draga úr eldsneytisbruna bíla liggi beinast við að leggja áherslu á nýjustu dísilvélarnar sem eru mun eyðslugrennri en samsvarandi bensínvélar og háþróaðar. En gagnvart Volkswagen standi þar einmitt hnífurinn í kúnni. Innan mengunarlaga- og regluverks í Kaliforníu og fleiri ríkjum Bandaríkjanna sé einfaldlega ekki rúm fyrir nýjustu TDI dísilvélar Volkswagen auk þess sem í innviðum Bandaríkjanna sé ekki gert ráð fyrir dísilknúnum fólksbílum.
Það er óvenjulegt og raunar talsvert mikil frétt að jafn háttsettur maður í bílaiðnaðinum og Bockelmann gefi umhverfis- og mengunarlöggjöf Kaliforníu opinberlega þá einkunn að hún sé heimskuleg. Nútíma tvinn- eða tvenndartækni í bílum hefur vissulega kosti og ókosti eins og tæknistjórinn bendir á. Kostirnir eru fyrst og fremst þeir að hemlunarorkan endurnýtist að stórum hluta sem straumur á rafgeyma bílanna. Í langkeyrslu fer hins vegar augljóslega minna fyrir þeim kosti en í borgarumferð þar sem stöðugt er verið að taka af stað og hemla. Þegar bíllinn stöðvast eða rétt mjakast áfram í þéttri umferðinni er brunahreyfillinn minna í gangi – geymarnir og rafmótorinn sjá um að mjaka bílnum áfram. Á þjóðveginum er brunahreyfillinn hins vegar nánast stöðugt í gangi, enda þarf stöðuga orku til að knýja bílinn áfram, yfirvinna loftmótstöðuna sem er margföld á við hæga borgarumferð.