Tvíorkustrætó á Íslandi

Strætó bs. mun næsta mánuðinn prófa tvíorku-strætisvagn í fyrsta sinn við íslenskar aðstæður. Vagninn er af Volvo 7700 Hybrid gerð og eru slíkir tvíorkuvagnar í notkun m.a. í London og Gautaborg. Volvo í Svíþjóð lánar vagninn fyrir milligöngu Brimborgar, innflytjanda Volvo á Íslandi.

http://www.fib.is/myndir/Egill-Gudrun-Reynir.jpg
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, Guðrún
Ágústa Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Strætó
og Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.
við tvinnvagninn.

Vagninn er knúinn áfram af fjögurra strokka 210 ha. dísilvél og 160 ha. rafmótor í gegnum 12 gíra gírkassa með tölvustýrðri gírskiptingu. Dísilvélin og rafmótorinn knýja vagninn áfram hvor í sínu lagi eða sameiginlega, allt eftir því hvernig stjórntölva vagnsins fyrst og fremst metur aðstæður og álag (ekki ósvipað kerfi og í Toyota Prius). Þegar vagninn fer af stað frá stoppistöð gerist það á rafmagni en dísilvélin slær svo inn þegar hraðinn er kominn yfir 20 km á klst. Þegar hemlað er, nýtist hreyfiorka vagnsins til þess að framleiða straum sem skilast inn á líþíumrafgeymasamstæðuna í toppi vagnsins. Vagninn er sagður eyða um 30% minna eldsneyti en hefðbundinn dísilknúinn sambærilegur vagn og útblástur frá honum að sama skapi minni.

http://www.fib.is/myndir/Volvo-hybr.kerfi.jpg
Tvíorkukerfi Volvo 7700 Hybrid. 1 dísilvél,
2 kúpling, 3 rafall/rafmótor, 4 gírkassi,
5 stjórntölva,6 straumbreytir, 7 líþíum-
rafgeymar.

Af hálfu Strætó bs. er tilgangurinn með tilraunaakstrinum að meta hvort slíkir vagnar séu raunhæfur valkostur fyrir Strætó. Töluverð þörf er orðin á að endurnýja vagnaflotann og er um leið leitað leiða til að gera hann umhverfisvænni og hagkvæmari í rekstri. Endunýjunarþörfin er metin upp á 7-8 vagna árlega. Í frétt frá Strætó bs segir að valkostum í visthæfum orkugjöfum hafi fjölgað síðustu ár og má til að mynda nefna vetni, metangas og rafmagn í því sambandi auk þess sem tvinntækni hefur í sumum tilvikum reynst vel til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hver þessara valkosta hafi kosti og galla í för með sér og mikilvægt sé að gera ítarlegar prófanir á þeim við íslenskar aðstæður áður en tekin er ákvörðun um vagnakaup. Með prófun Strætó á tvinnvagninum er metið hversu vel hann geti hentað á íslenskum strætóleiðum og er sérstaklega fylgst með eldsneytisnotkun auk þess sem fleiri þættir eru metnir.

 „Það er spennandi að fá tækifæri til að prófa tvinntæknina hér á landi og verður áhugavert að sjá hvernig vagninn stendur sig í samanburði við aðra kosti. Það er hröð þróun í framleiðslu visthæfra vagna um þessar mundir og ljóst að í framtíðinni verðum við minna háð jarðefnaeldsneyti en verið hefur. Við hjá Strætó bs. fylgjumst að sjálfsögðu mjög vel með þessari þróun og leitum að þeirri samsetningu strætisvagnaflotans sem er í senn eins umhverfisvæn og hagkvæm í rekstri og kostur er,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.