Tvöfalt ljósmagn, lengri geisli
Ný gerð af framljósaperum fyrir bíla lýsa um 30 prósent lengra fram á við heldur en venjulegar framljósaperur og ljósmagnið frá þeim er um helmingi meira. Þetta sýna prófanir sem FDM í Danmörku hefur gert á þremur tegundum þessara nýju ljósapera og borið saman við venjulega longlife peru. En gallinn við þær nýju er sá að þær endast skemur en venjulegu longlife perurnar.
Nú er tími svartasta skammdegisins og það er myrkur þegar farið er af stað til vinnu að morgni og það er komið myrkur þegar haldið er heim úr vinnunni og góð ljós á bílnum eru lífsnauðsynleg sem aldrei fyrr, ekki bara til að sjá vel út úr bílnum heldur líka til að bíllinn sjáist í umferðinni. Þessar nýju ofur-bílaperur eru afrakstur nýrrar framleiðslutækni sem gerir mögulegt að tvöfalda ljósmagnið og lengja jafnframt geislann þannig að ökumaður sér lengra fram á veginn auk þess sem birtan er betri.
„Mælingar okkar sýna að ljósmagnið er rúmlega tvöfalt meira og útsýn lengra fram á veginn eykst um 30 prósent miðað við hefðbundnu perurnar. Hvorttveggja þýðir að hindranir framundan sjást mun fyrr og betra ráðrúm er til að bregðast við þeim áður en það er um seinan,“ segir tækniritstjóri Motors, félagsblaðs FDM, Søren W. Rasmussen.
En meira ljósmagn hefur lengstum þýtt meiri hita og þar með styttri endingu og það gildir vissulega ennþá. Hefðbundnar longlife perur endast allt að 1.100 klst. Meðan sú af nýju perunum sem entist best lifði í 365 tíma. „En það munar mjög um þá meiri birtu og lengri ljóskeilu sem nýju perurnar gefa, ekki síst fyrir eldri ökumenn. Rannsóknir sýna nefnilega að ljósnæmi augnanna dofnar með aldri og sextug manneskja þarf um fjórfalt bjartara ljós en tvítug, til að geta séð það sama,“ segir Søren W. Rasmussen.
Þessi peruprófun Motors fór fram á prófunarstöð Philips í Þýskalandi. Alls voru prófaðar 20 perur af hverri hinna þriggja perutegunda en þær voru General Electric Megalight +120, Osram Night Breaker Unlimited +100 og Philips X-treme Vision +130%. Mælt var ljósmagn, geislalengd, hitastig og ending. Munurinn milli tegundanna þriggja reyndist ekki mikill en Philips ofurperan þótti þó öflugust.