Tvöföld Reykjanesbraut í kastljósi heimsins
Í nýútkomnu febrúarhefti Auto News, fréttabréfs FIA – alþjóðasambands bifreiðaeigendafélaga er fjallað um þann árangur sem náðst hefur á Íslandi sl. áratug að fækka dauðaslysum í umferðinni um helming miðað við áratuginn á undan.
Þessi góði árangur er ekki síst rakinn til tvöföldunar Keflavíkurvegarins, eða Reykjanesbrautar eins og vegurinn heitir opinberlega.
Síðan tvöfölduninni lauk á meginhluta leiðarinnar fyrir tæpum áratug, hefur ekkert mannslíf glatast í umferðarslysum á þessari leið, en dauðaslys voru nokkur á hverju ári áður. Nýi 2+2 vegurinn hefur þannig orðið til að fækka dauðaslysum á landinu í heild um 20%.
Í frétt Auto News er rakinn aðdragandinn að tvöföldun vegarins og rætt við Steinþór Jónsson formann FÍB sem greinir frá viðbrögðum Suðurnesjafólks eftir skelfilegt umferðarslys á Keflavíkurveginum þar sem þrír létu lífið. Þúsund manna fundur á Suðurnesjum krafðist tafarlausra endurbóta á veginum og hinn eindregni vilji sem kom fram bæði þá og síðar, leiddi til þess að hafist var handa við að tvöfalda veginn. Þótt enn vanti herslumuninn upp á að verkinu sé lokið, þá er árangurinn öllum ljós.
Auto News er sent öllum aðildarfélögum FIA um allan heim, bæði sem prentað tímarit og á rafrænu formi. FÍB er eitt hinna evrópsku aðildarfélaga FIA en meðlimir þeirra eru samtals hátt í 100 milljónir talsins.