Tvöföldun Reykjanesbrautar komin í útboð
Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum. Einnig er inni í verkinu bygging fimm brúarmannvirkja og einna undirganga úr stáli.
Verk þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna.
Á Reykjanesbraut verða gerð mislæg gatnamót við Rauðamel til að greiða leið að nýjum framtíðar byggingarsvæðum Hafnarfjarðar. Sömuleiðis verða mislægu gatnamótin við Straumsvík stækkuð og bætt við tengingu að iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Álhellu en tilboð verða opnuð 4. apríl.
Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og eru verklok áætluð í júní 2026.