Tvöföldun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi
Óskatak ehf. átti lægsta tilboð í tvöföldun Hringvegar (1) Suðurlandsvegar, frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi. Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við verktakann. Tilboðið hljóðaði það upp á rétt rúmar 402 milljónir króna og nam 81,9 prósentum af áætluðum verktakakostnaði. Samkvæmt verkáætlun skal verkinu vera að fullu lokið eigi síðar en 1. nóvember 2020.
Í þessum hluta eru allir verkþættir vegagerðar við tvöföldun Suðurlandsvegar í fjórar akreinar á útboðskaflanum. Um er að ræða uppbyggingu á nýrri eystri akbraut vegarins. Vegrið kemur í austurkanti axlar nýrrar akbrautar og í báðar axlir í miðdeili. Götulýsing og hliðarniðurföll verða sett í miðdeili akbrauta.
Skeringar, jarðvegsskipti og gerð stofnlagna við vegstæðið hefur að stærstum hluta verið unnið fyrir mörgum árum síðan. Við mörk útboðskaflans skal tengja tvöföldun vegarins við núverandi vegyfirborð Suðurlandsvegar og rampa frá Bæjarhálsi.
Núverandi undirgöng við Krókháls skal breikka til norðurs og lengja til austurs. Ásýnd ganganna að vestan og austan verður með svipuðu sniði í verklok og nú er, þ.e. bogaformaðir stoðveggir af breytilegri hæð er sveigja frá Krókhálsi frá vestri og eystri gangamunna á báðar hliðar götu.
Því skal steypa upp þrjá nýja stoðveggi, einn á norðurhlið við vestri gangamunna og tvo á báðar hliðar götu við eystri gangamunna. Vegna breikkunar og lengingar ganganna skal í núverandi göngum rífa stoðveggi á norðurhlið við báða gangamunna. Auk þess skal rífa handrið úr stáli í núverandi undirgöngum og steyptan stíg og kantstein í byggingarstæði breyttra ganga.
Utan við sökkla útveggja skal ganga frá jarðvatnslögn og tengja hana við núverandi fráveitukerfi á svæðinu. Bera skal graffiti vörn á sýnilega steypufleti í göngum og á stoðveggjum. Í göngunum er raflýsing.