Tvöföldun Suðurlandsvegar í undirbúningi
Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ, undirbýr tvöföldun Suðurlandsvegar frá vegamótum við Bæjarháls að Hólmsá austan Hafravatnsvegar. Markmið framkvæmdanna er að auka umferðaröryggi og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg með því að aðskilja akstursstefnur þannig að tvær akreinar verði í hvora átt.
Framkvæmdir verða í nokkrum áföngum. Í gildandi samgönguáætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir að fyrstu áfangarnir komi til framkvæmda á tímabilinu 2025-2029. Þeir felast fyrst og fremst í aðskilnaði akstursstefna á kaflanum. Síðar er gert ráð fyrir að byggð verði þrenn mislæg vegamót.
Nú er unnið að frumdrögum hönnunar og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Síðar er stefnt að gerð deiliskipulags fyrir framkvæmdasvæðið og endanlegri hönnun í samræmi við deiliskipulag. Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Kynning á drögum að tillögu að matsáætlun
Drög að tillögu að matsáætlun fyrir ofangreinda framkvæmd hafa nú verið lögð fram til kynningar. Allir geta kynnt sér drögin og lagt fram athugasemdir. Að kynningartíma loknum verða drögin, ásamt athugasemdum almennings, send Skipulagsstofnun til umfjöllunar.