Twingo og Smart með vélina í skottinu
Hinir nýju bílar; annars vegar Renault Twingo og hins vegar Smart Forfour og Fortwo eru afrakstur dálítið óvenjulegrar samvinnu Renault í Frakklandi og hins þýska Daimler, móðurfélags Mercedes. Bílarnir sem nú koma senn á almennan markað eru líka óvenjulegir að því leyti að þeir eru með vélina aftur í og drif á afturhjólunum. Tæknilega eru þeir hinir sömu þótt útlit þeirra sé með sínu hverju mótinu.
Vélin að aftan og drifið á afturhjólunum. Á sjötta áratugi sl. aldar framleiddi Renault vinsæla bíla með þessu byggingarlagi, m.a. Dauphine og R-8. |
Samvinnuviðræður Renault og Daimler hófust árið 2008, samningar voru undirritaðir 2010 og nú haustið 2014 kemur afraksturinn í ljós. Renault Twingo (þriðja kynslóð) kemur á almennan markað í þessum mánuði en Daimler setur báða Smart bílana í sölu í nóvember nk. – þann lengri og þann styttri.
Hönnuðir Renault veltu vissulega fyrir sér hugmyndum um bíl með vél að aftan þegar vinna hófst við hönnun nýs Twingo bíls fyrir nokkrum árum. Þeir gáfu þá hugmyndina frá sér vegna þess að flestallir aðrir framleiðslubílar Renault eru með vélar fram í og framhjóladrifi (eða aldrifi) og vélar og annar tæknibúnaður framleiðandans hefði illa getað nýst í nýjan „aftanvélarbíl.“ Hönnunar-og byggingarkostnaður nýja bílsins hefði því orðið allt of hár og bíllinn of dýr. En þá kom samvinnan við Daimler um Smart bílana til og það gerbreytti forsendunum. Daimler lagði áherslu á að nýju Smart bílarnir yrðu, eins og þeir eldri, afturhjóladrifnir. Þar með varð það svo að samvinna um tvær tegundir með sama undirvagn, sömu vélar, gírkassa og hjólabúnað var allt annað dæmi en það að búa til einn frá grunni.
Að ytra útliti eru Renault Twingo og Smart ólíkir. Í raun er það aðeins framrúðan og fremsti hluti toppsins sem eru eins. Tæknilegu innviðirnir eru aftur á móti þeir sömu. Vélargerðir eru tvær. Báðar eru þriggja strokka bensínvélar frá Renault. Önnur er 1000 rúmsm að rúmtaki en hin 900 rúmsm með túrbínu. Fimm gíra handskipti gírkassinn er einnig frá Renault en væntanleg er sjálfskipting frá Daimler.
Hinir nýju Smart bílar eru byggðir í tveimur útgáfum; lengri og styttri. Sú lengri nefnist Forfour og sú styttri Fortwo. Talsmaður Renault segir við tímarit FDM, systurblað FÍB blaðsins, að engin áform séu um það að byggja líka stuttan tveggja manna Twingo. Stutti Smart bíllinn, Fortwo, verður byggður í verksmiðju Daimler í Frakklandi en Smart Forfour og Renault Twingo í verksmiðju Renault í Slóveníu.