Týna bílnum í jólastressinu
Það er algengara í desember en öðrum mánuðum ársins að fólk gleymi hvar það lagði bílnum sínum síðast. Stressið og jólainnkaupaæðið, þétt og hæg umferðin og troðfull bílastæðin hafa þessi áhrif. Lögreglu bárust í fyrra furðu margar tilkynningar frá fólki sem hélt að bílum sínum hefði verið stolið. En svo þegar um hægðist fundust bílarnir loks, misfjarri þeim stöðum sem fólkið minnti að það hefði lagt þeim.
Það er ekki bara hér á Íslandi sem svona á sér stað. Í Svíþjóð bárust lögreglu og tryggingafélögum fleiri tilkynningar af þessu tagi í fyrra en nokkru sinni áður. Og nú er jólaverslunin komin aftur af stað bæði þar og hér og stressið fer vaxandi hjá mannskapnum eftir því sem nær dregur jólum. Því má búast við því að margir eigi enn eftir að steingleyma hvar bílnum var lagt eða þá að misminna um það og fyllast örvæntingu.
Sænskt tryggingafélag hefur rýnt í þessi mál. Niðurstaða þess er sú að 15 prósent þeirra bíla sem tilkynntir eru sem stolnir yfir árið eru það bara alls ekki, heldur gleymdu eigendur þeirra hvar þeir sjálfir lögðu þeim. Flest þessi gleymskuatvik eiga sér einmitt stað í desembermánuði og týndu bílarnir finnast yfirleitt mjög fljótt aftur og oftast við það að það rifjast upp fyrir eigandanum hvar bílnum var lagt eða að eigandinn man allt í einu eftir því að hannvar bara ekkert á bílnum, heldur skildi hann eftir heima og tók strætó.
En hverjir eru það helst sem týna bílunum sínum á þennan hátt? Upplýsingafulltrúi sænska tryggingafélagsins segir að það séu helst stressaðir þriggja barna fjölskyldufeður sem eiga nýlegan bíl og búa í Stokkhólmi. Atvikin tengjast gjarnan innkaupaferðum frá heimilinu í verslunarmiðstöð eða fjölsótt verslunarhverfi, eða þá því að farið er á bílnum í jólaglögg. Eftir samkomuna taki fólk leigubíll heim og muni síðan ekkert eftir því daginn eftir en sjá bara að bíllinn er ekki í innkeyrslunni. Til að spara sjálfum sér óþægindi og viðbótarstress sé ágætt ráð að taka mynd á farsímann af bílnum þar sem honum er lagt og senda síðan sjálfum sér myndina og stutta lýsingu á staðnum þar sem hann stendur. Einnig er hægt að binda rauða jólaslaufu á loftnetsstöng bílsins svo hann skeri sig úr öðrum bílum á stæðinu eða í bílastæðahúsinu. Loks mætti reyna ýta á takkann á fjarstýringunni og sjá hvort bíllinn nær merkinu og byrjar að blikka ljósunum. En lokaráð upplýsingafulltrúans er þó það að láta ekki stressið hremma sig á aðventunni og muna eftir því að jólin eru friðarhátíð en ekki hátíð taugaveiklunar, kaupæðis og hverskonar ofstopa.