Um 1.900 voru teknir fyrir fíkniefnaakstur
Í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir 2019 kemur fram að þótt hraðakstursbrotin hafi verið fyrirferðamikil komu líka mörg önnur umferðalagabrot á borð lögreglunnar. Þar kemur fram að um 1.900 voru teknir fyrir fíkniefnaakstur og tæplega 1.200 fyrir ölvunarakstur.
Brotunum hefur fjölgað verulega undanfarin ár, sérstaklega fíkniefnakastur. Mun fleiri voru teknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis fyrir nokkrum árum síðan heldur en fíkniefna. Þetta snerist við 2014 og hefur haldist síðan. Að aka undir áhrifum áfengis og/ eða fíkniefna er ólíðandi með öllu.
Embættið hefur lagt á þá mikla áherslu að stöðva þessa ökumenn og heldur daglega úti slíku eftirliti. Sumir fyrrnefndra ökumanna voru stöðvaðir í umdæminu oftar en einu sinni. Það átti líka við um þá 1.250 sem voru teknir í akstri þrátt fyrir að hafa þegar verið sviptir ökuleyfi.
Einhverjir gerðu þetta ítrekað og létu sér ekki segjast. Um 750 ökumönnum var líka gert að hætta akstri, en þeir höfðu aldrei öðlast ökuskírteini.