Um skráningarskyldu ökutækja
FÍB hefur áður vakið athygli á nýlegum breytingum á umferðarlögum hér á þessum stað og engin ástæða til annars en halda uppteknum hætti. Í umferðarlögunum „nýju“ sem tóku gildi þann 1. janúar 2020 voru fjölmörg nýmæli þótt ekki hafi þau öll farið mjög hátt í umræðunni. Eitt þeirra var að frá og með þeim tíma urðu allir eftirvagnar, þar með taldar s.k. léttar kerrur, skráningarskyldir. Var þar með afnumið ákvæði um undanþágu frá skráningu eftirvagna léttari en 750 kg að leyfðri heildarþyngd sem verið hafði lengi í umferðarlöggjöf hér á landi. Það var í eðli sínu nánast sér íslenskt ákvæði miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við í umferðaröryggismálum.
Almennt talað þýddi þessi breyting að skráningarskylda ökutækis leiðir skv. gildandi regluverki til þess að það sætti eftirliti með öryggisbúnaði, sbr. t.d. þegar ferðavagnar, sem áður voru bara skráðir en ekki skoðaðir, voru gerðir skoðunarskyldir fyrir allmörgum árum.
Með breytingu á „nýju“ umferðarlögunum þann 11. maí s.l., þ.e. tæpu einu og hálfu ári eftir gildistöku þeirra, runnu stjórnvöld „á rassinn“ með að fylgja þessari breytingu eftir. Þá var þetta nýmæli fellt úr gildi og farið aftur til fyrra horfs þannig að ráðherra var á ný heimilað að ákveða að þessi ökutæki yrðu undanþegin skráningu.
Þar með var brostin forsenda þess að þau sættu sérstöku eftirliti eins og lögbundinni skoðun. Í umfjölun umhverfis- og samgöngunefndar alþingis, var rökstuðningurinn m.a. að gengið hefði verið of langt í lagasetningu eins og þar er nánar rakið og umferðarslys vegna vanbúinna léttra eftirvagna væru fátíð.
Meðan breytingin sem tók gildi þann 11. maí s.l. var til umfjöllunar í samráðsgátt stjórnvalda og í meðförum nefndarinnar, vakti FÍB athygli á að breyting til fyrra horfs væri ekki í þágu umferðaröryggis á Íslandi og rökstuddi rækilega. Meðal annars var vísað til þess að með því að gera nánast öll ökutæki á vegum landsins skráningarskyld væri stuðlað að auknu umferðaröryggi.
Skráningarskylda allra eftirvagna var og ein af forsendum rökstuðnings höfunda frumvarps að gildandi umferðarlögum að ökutækjum sem drægju eftirvagna og þ.u.l. mætti aka á allt að 90 km/klst hraða utan þéttbýlis eins og aka má öðrum ökutækjum. Með því að afnema skráningarskylduna væri búið að breyta forsendum.
Viðhorf FÍB hlaut ekki hljómgrunn enda var mikill þrýstingur á stjórnvöld m.a. vegna ákveðins meints ómöguleika í afturvirkri skráningu ýmis konar léttra eftirvagna, heimasmíðaðra og „mixaðra“ kerra eins og sagt er.
Eigendur léttra eftirvagna undir 750 kg að leyfðri heildarþyngd, geta því haldið áfram að nota sínar óskráðu kerrur í umferðinni. FÍB hvetur þá til að gæta varúðar og vekur athygli á að ábyrgð þeirra sem ökumanna á ástandi ökutækis, hleðslu þess o.s.frv. nær einnig til eftirvagns sem þeir draga.
Eftir situr hins vegar annað lagaákvæði um skráningarskyldu ökutækja þ.e. farandvinnuvéla í almennri umferð sem ekki hefur verið virkjað enn. Það verður kannski efni í annan mola við tækifæri.
Myndatexti: Í „nýju“ umferðarlögunum var sett sú regla að allar kerrur skyldu verða skráningarskyldar. Sú regla var afnumin þann 11. maí s.l.