Allt að 76% verðmunur á umfelgun

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kannaði verð á umfelgun hjá 35 dekkjaverkstæðum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að mikil verðmunur getur verið á milli aðila þar kostnaður gat numið allt að 76% við umfelgun á 16 tommu álfelgum undir fólksbíl. Þá var einnig umtalsverður munur þegar kom að 18 tommu álfelgum undir jeppling en hann var mestur í 71%.

Spurt var: Hvað kostar umfelgun og jafnvægisstilling annars vegar á fjórum 16 tommu álfelgum undir fólksbíla , og hins vegar á fjórum 18 tommu álfelgun fyrir jepplinga.

Óskað var eftir listaverði án allra afslátta eða sérkjara eins og FÍB-afsláttar, eldri borgara afsláttar o.s.frv. Það skal tekið fram að sum fyrirtækin í könnuninni gefa enga afslætti á þau verð sem gefin eru upp.

Lægsta verðið á umfelgun og jafnvægisstillingu á 16 tommu álfelgum reyndist vera hjá Kaupfélagi Skagfirðinga 9.763 krónur. Ódýrasta 18 tommu umfelgun og jafnvægisstilling reyndist vera hjá Dekkjasölunni á Dalshrauni í Hafnafirði 12.000 krónur. Dýrasta umfelgun og jafnvægistilling á 16 tommu álfelgun var síðan hjá Bílver ÓS á Hvammstanga, alls 17.380 krónur.

Dýrasta umfelgun og jafnvægistilling á fjórum 18 tommu álfelgum fyrir jepplinga var hjá Dekkjahöllinni, alls 20.490 krónur.

Meðalverð á 16 tommu umfelgun var um 12.500 krónur. Meðalverð á 18 tommu umfelgun var um 16.500 krónur. Að meðaltali á milli ára hækkar umfelgunin á fólksbílum (16 tommu) um 9% og á jepplinga (18 tommu) um 5,5%.

Eingöngu var kannað verð á þessari tegund bifreiðaþjónustu. Ekkert var spurt um gæði þjónustunnar og mismunandi þjónustustig. Einvörðungu var miðað við álfelgur enda má gera ráð fyrir því eftir lauslega athugun að álfelgur séu undir um 70% fólksbíla.

FÍB félagsmenn geta einnig kynnt sér nýútkomna dekkjakönnun sem var framkvæmd af norsku bifreiðsamtökunum NAF. Þar er fjöldi negldra og ónegldra dekkja tekið til ítarlegra prófanna. Niðurstöður og umfjallanir má finna hér.

 

 

1. nóvember gengur hinn formlegi vetradekkjatími í garð, þegar löglegt verður að aka á nelgdum vetrarhjólbörðum. FÍB vekur athygli á að samkvæmt umferðarlögum ber ökumaður ábyrgð á því að aka um á dekkjum sem eru í samræmi við aðstæður hverju sinni, óháð árstíðum.

Gott að hafa í huga:

  1. Kannaðu verð áður en þú mætir í dekkjaskipti.
  2. Áríðandi að gera verðsamaburð ef keypt eru ný dekk.
  3. Pantaðu tíma í stað þess að lenda í röð.
  4. Gættu þess að fara vel með dekkin og þrífa þau reglulega.
  5. Ekki aka um á lélegum nagladekkjum. Það veitir falskt öryggi.
  6. Margir láta vetrardekk duga en sleppa nöglunum.
  7. Dekk eiga sér ákveðinn líftíma. Ekki kaupa gömul dekk. Lestu á dekkið. Þar sést framleiðsluárið.

 

Fréttin var uppfærð 18. október kl 14:00 2023 vegna ábendingar.

 

 

Ábendingar eða fyrirspurnir varðandi könnunina má senda á bjorn@fib.is