Umferð heldur áfram að dragast saman
Mikill samdráttur hefur orðið á akstri landsmanna það sem af er árinu miðað við síðasta ár. Umferðarteljarar Vegagerðarinnar staðfesta þetta og að fyrstu tvo mánuði ársins hafi samdrátturinn numið á sjöunda prósent. Þá leiðir ný könnun MMR, þar sem fólk var spurt um breytingar á bifreiðanotkun í kjölfar eldsneytishækkana, í ljós að 28,3% þeirra sem afstöðu taka, segjast hafa minnkað bifreiðanotkunina mikið. 41,7% segjast hafa minnkað bifreiðanotkun sína lítillega, 25% sögðu hana ekkert hafa breyst. Sjá nánar á heimasíðu MMR
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB segir hvorugar niðurstöðurnar koma á óvart og tími til að stjórnvöld hugsi sinn gang. FÍB sendi erindi til forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir mánuði þar sem lagt var til að skattar ríkisins á bensín og dísilolíu yrðu lækkaðir, tímabundið að minnsta kosti. „Við höfum ekki enn fengið neitt svar við því erindi og það eina sem við höfum heyrt er að það sé komin nefnd í málið. Ástandið er orðið það slæmt að það hefði þurft að grípa til aðgerða strax í gær,“ segir Runólfur í samtali við fréttavef DV í dag.