Umferðareyjar á Þingvöllum teknar niður
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni að ákveðið hafi verið að taka niður umferðareyjar í tveimur þéttbýlishliðum inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Fram kemur að yfirborðsmerkingar haldi sér en verði bættar og að fræsa eigi vegrillur í merkta svæðið til þess að freista þess að hægja á umferðinni til að auka öryggi.
Þessi ákvörðun Vegagerðarinnar kemur í kjölfar mikillar gagnrýni á hönnun og gerð þessara veghliða í þjóðgarðinum. Ákvörðun Vegagerðarinnar er virðingarverð og í anda markmiða vegayfirvalda um að vegakerfið þjóni öryggi vegfarenda.
Vegagerðin segir að þéttbýlishlið séu samkvæmt orðanna hljóðan sett upp á þjóðvegum sem liggja í gegnum þéttbýli og að þau hafi víða aukið öryggi vegfarenda. ,,Ljóst er nú að sama útfærsla á leið inn í þjóðgarðinn, þar sem ekki er þéttbýli, er óheppileg og voru mistök að sjá það ekki fyrir. Auk þess krefst slíkt veglýsingar sem ekki er fyrir hendi."
í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar segir einnig að aðstæður við Þingvelli séu öðruvísi þar sem ekki sé verið að aka inn í þéttbýli. Ökumenn eigi því erfiðara með að átta sig á því til hvers þau eru við Þingvelli. Ástæðan sé sú að hámarkshraðinn í þjóðgarðinum sé 50 km/klst, vegurinn sé með takmarkaða vegsýn og ekki hugsaður fyrir meiri hraða. Vegagerðin muni áfram vinna að því markmiði að umferðarhraði í þjóðgarðinum verði 50 km/klst enda sé það mikilvægt umferðaröryggisatriði.
Í lok tilkynningarinnar segir að ljóst sé að mistök hafi verið gerð við framkvæmdina þar sem eyjarnar voru settar upp áður en yfirborðsmerkingar voru málaðar en það hefði þurft að gerast áður eða samtímis. Vegagerðin biðst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.