Umferðarmet á Hringvegi í október

Aldrei hafa fleiri bílum verið ekið um Hringveginn í október en í þeim október sem nú er nýliðinn að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni. Umferðin frá sama mánuði fyrir ári jókst um nærri 32 prósent sem er gríðarlega mikil aukning. mesta aukning er á Mýrdalssandi og í Hvalnesi í Lóni þar sem umferðin reyndist tvisvar og hálfu sinni meiri en í fyrra eða aukning upp á um 250 prósent.

Þetta vekur upp spurningar um hvað valdi og nærtækast er að líta til fjölgunar ferðamanna. Þeir eru eigi að síður töluvert færri sem nú koma til landsins en áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Fram kemur að hugsanlega er líka aukning á ferðum Íslendinga, að heimamenn séu enn að ferðast innanlands í auknum mæli. Ef til vill í stað ferða erlendis t.d. í vetrarfríum skólanna. Einnig verður að teljast líklegt að umsvifin í efnahagslífinu séu nú að aukast hratt. Þetta hefur þó ekki verið skoðað sérstaklega.

Nýtt met var slegið

Mikil aukning varð á umferð í nýliðnum október mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári eða tæplega 32%. Þessi aukning varð til þess að nýtt met var slegið í umferð um Hringveginn, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar, en aldrei áður hafa fleiri ökutæki farið yfir umrædd mælisnið í október.

Umferð jókst á öllum landssvæðum en mest yfir mælisnið á Norðurlandi eða um rúmlega 58%.  Af einstaka mælistöðum mældist mesta aukningin á Mýrdalssandi eða sem nam heilu 251%. 

 Þessi mikla aukning á Mýrdalssandi er þó ekki met aukning þar sem umferð á Hvalsnesi í Lóni jókst um 256% milli september mánaða 2020 og 2021.  Þessar miklu hlutfallsaukningar núna eru sjálfsögðu til komnar vegna þess að umferð dróst mikið saman á síðasta ári.