Umferðaröryggi er heilbrigðismál
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.
„Höfum hugfast að þegar við göngum héðan út eftir tveggja tíma umræður hafa 250 manns látist í heiminum vegna umferðarslysa. Um þrjú þúsund manns hafa slasast alvarlega á sama tíma – margir svo illa að við blasir brostin framtíð. Það hefði mátt koma í veg fyrir mörg þessara slysa, hefðum við bruggðist við fyrr.“
Þetta voru orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra á morgunverðarfundi Slysavararáðs í morgun undir yfirskriftinni „2+2 eða 2+1 vegir: Öryggi vegfarenda - kostnaður samfélagsins - erum við á réttri leið?“. Ræðu heilbrigðisráðherra í heild er að finna hér.
Auk heilbrigðisráðherra voru framsögumenn á fundinnum þeir þeir Haraldur Sigþórsson verkfræðingur hjá Línuhönnun, Steinþór Jónsson formaður Samstöðu og FÍB og Ágúst Mogensen hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa. Erindi Haraldar nefndist 2+1 vegir – öruggur og ódýr valkostur. Erindi Steinþórs Jónssonar nefndist 2+2=0 – Reiknum dæmið til enda. Erindi Ágústs Mogensen nefndist Framanákeyrslur 1998-2007 – Gögn rannsóknarnefndar umferðarslysa um banaslys. Hægt er að nálgast erindi framsögumanna á vef Lýðheilsustöðvar.
Að loknum framsöguerindum fóru fram pallborðsumræður og framsögumenn svöruðu fyrirspurnum.