Umferðaröryggi, nagladekk og 27 ára gömul rannsókn.

Özur Lárusson framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins fjallaði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær um mögulegt bann við nagladekkjum í Reykjavík. 

Í greininni fjallar Özur m.a. um mikilvægi nagladekkja til að bæta öryggi vegfarenda við vissar vetraraðstæður.  Özur vísar m.a. í rannsókn VTI (Statens väg- och transportforskningsinstitut) í Svíþjóð frá 2009, en stofnunin vinnur að rannsóknar- og þróunarverkefnum innan samgöngugeirans víða um heim.  Í rannsókninni var fjallað um hvaða áhrif það hefði á umferðaröryggi í Svíþjóð ef notkun á nagladekkjum færi úr 70% í 20%. VTI komst að þeirri niðurstöðu að tilkynningum um slys myndi fjölga um 140,3, látnum í umferðinni myndi fjölga um 4,4 að meðaltali og alvarlega slösuðum myndi fjölga um 33 á ári yfir vetrartímann.

Özur gagnrýnir Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúa fyrir það að fullyrða í viðtölum að nagladekk slíti götum 60-100 sinnum meira en venjuleg dekk. Hann segir Hjálmar vera að vísa í 27 ára gamla rannsókn.  Í nýjum rannsóknum sé komist að þeirri niðurstöðu að bílar með nagladekk slíti götum 20 sinnum meira en bílar á naglalausum dekkjum.


Í niðurlagi greinarinnar segir Özur:  ,,Það er alvarlegur hlutur að skattleggja öryggi borgaranna með villandi rökum og vísa í gamlar rannsóknir því til stuðnings. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort aðrar ákvarðanatökur er koma frá borgaryfirvöldum séu byggðar á rannsóknum frá síðustu öld.

Hins vegar er alveg ljóst að margir hafa lítið með nagladekk að gera undir bíla sína og duga í mjög mörgum tilfellum góð ónegld vetrardekk og ættu því að velja þann kost. Borgaryfirvöld ættu frekar að setja meiri kraft í að fræða fólk með réttum upplýsingum en að koma með boð, bönn og sektir.“