Umferðarsektir í Evrópu
Sektir fyrir umferðarlagabrot hafa hækkað í flestum Evrópulöndum frá því sem var í fyrrasumar. Fyrir íslenska ferðalanga sem kosta sumarleyfisferðir sína með íslenskum krónum geta sektargreiðslur í útlöndum orðið mjög dýrt spaug. Þeir sem ferðast ætla á eigin vegum erlendis í sumar, annaðhvort á bílaleigubílum eða eigin farartækjum skyldu því gæta sín á því að hlýða umferðarlögum og -reglum í hvívetna og hafa athyglina óskipta við aksturinn, umferðarmerkin og aðstæður allar, fara ekki yfir hámarkshraða, forðast vafasaman framúrakstur, nota stefnuljósin alltaf þegar við á, tala ekki í farsíma í akstri né lesa eða skrifa smáskilaboð.
Hafi maður verið staðinn að verki við umferðarlagabrot er sektin víða innheimt á staðnum. En sektarboð getur líka borist í pósti eftir að heim er komið og er skemmst frá því að segja að langoftast er skásti kosturinn sá að greiða slíkar kröfur umyrðalaust. Það er í flestum tilfellum þýðingarlaust að reyna að hunsa þær. Slíkt leiðir einfaldlega til enn meiri kostnaðar , vandræða, lögsókna og leiðinda.
ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur tekið saman yfirlit yfir viðurlög við nokkrum algengum umferðarlagabrotum í 34 Evrópuríkjum. Fyrir að aka 20 km yfir hámarkshraða er algengar sektarupphæðir 130-170 evrur (20-26 þ. kr.). Ekki batnar það ef farið hefur verið 50 km framúr hámarkshraðamörkum. Það kostar 530 evrur á Ítalíu en 1.500 evrur í Frakklandi ( 81.500/231.000 kr.)
Í mörgum Evrópuríkjum gilda almennar reglur um afslætti af sektarupphæðum séu þær greiddar innan tilskilins frests. Sem dæmi má nefna Spán sem veitir 50% afslátt sé sekt greidd innan 20 daga frá því brot átti sér stað. Á Ítalíu er afslátturinn 30%.
Sé sekt staðgreidd er nauðsynlegt að fá í hendur kvittun fyrir greiðslunni því fyrir hefur komið að fólk hefur fengið senda sektarkröfu vegna brots sem greitt var fyrir á staðnum.
Nánar verður fjallað um þetta í sumarútgáfu FÍB blaðsins sem nú er í vinnslu.