Umferðarsektir í Evrópu
Til þessa hefur það verið almennt talið að sé maður á ferð í bíl í Evrópulandi á bíl sem skráður er utan viðkomandi lands og næst á hraðamyndavél, eða hefur verið skrifaður niður af lögreglu eða stöðuvörðum en ekki rukkaður á staðnum, sleppi við að greiða sektina. Hún rati einfaldlega aldrei inn um bréfalúguna heima hjá manni.
Á þessu er að verða breyting því að flest bendir til að lögregluembætti í Evrópu öðlist innan tíðar gagnkvæman aðgang að ökutækjaskrám og ökuskírteinaskrám allra EES landanna og geti flett upp í þeim að vild.
Hingað til hefur það þó verið þannig að hafi maður verið á bílaleigubíl hefur það verið nánast víst að maður sleppi ekki. Sektarboðið er sent bílaleigunni sem áframsendir það til leigutakans, enda telst hún ekki ábyrg fyrir umferðarlagabrotum viðskiptavina sinna. Einnig hafa einstök lönd, eins og t.d. Þýskaland og Holland gengið talsvert hart eftir því að innheimta sektir sem erlendir ökumenn hafa orðið sér úti um hjá þeim, sérstaklega þó ef þeir eru frá grannlöndunum og sektirnar er frá 70 evrum og upp úr. Ekki hefur þótt taka því að eltast við minni upphæðir.
En nú vilja menn þétta netið enn meir og allt útlit er fyrir að löndin á Evrópska efnahagssvæðinu muni byrja að skiptast á tölvuupplýsingum sem gera mögulegt að elta uppi umferðarbrotamenn um alla Evrópu að Íslandi meðtöldu. Tillaga um þessi upplýsingaskipti liggur nú fyrir Evrópuþinginu og ráðherraráði ES og öruggt þykir að hún fljúgi í gegn. Þá verða umferðarbrotamenn hvergi óhultir lengur og munu þurfa að gjalda fyrir brot sín fyrr eða síðar.
Hafi maður t.d. lent í hraðamyndavél einhversstaðar í Evrópu á eigin bíl á íslenskum númerum, hefur það verið mikið umstang fyrir lögreglu viðkomandi lands að grafa upp nafn manns og heimili, vegna þess að hún hafði ekki aðgang að íslenskri bifreiðaskrá.
Það hafa því satt að segja ekki verið miklar líkur á því að sektarboðið rataði nokkru sinni í bréfalúguna hjá manni. Það mun breytast þegar tillagan gengur í gegn. Þá munu lögregluyfirvöld allra EES ríkjanna fá aðgang að gagnabanka sem heitir Eucaris. Í honum eru allar bifreiðaskrár og skrár um ökuskírteini og ökuréttindahafa í Evrópu samankomnar á einum stað. Gert er ráð fyrir því að þessar nýju reglur taki gildi 2013.
Umferðarlög og reglur eru mjög svipaðar í Evrópu hvaða land sem á í hlut. Einhver munur getur þó verið á því hvernig er tekið á brotum og þá hvaða brotum. En þú getur þó gengið út frá því sem vísu að hverskonar fyllirísakstur og hraðakstur umfram gefin mörk er allsstaðar mjög illa séð. Sömuleiðis þykir það mjög vond latína að aka yfir gatnamót á rauðu ljósi og sleppa því að spenna öryggisbeltin.
Einnig má eiga von á sektum fyrir að rása fyrirvaralaust milli akreina, aka framúr öðru ökutæki hægra megin við það, aka eftir akreinum sem eingöngu eru ætlaðar almannasamgöngutækjum og leigubílum, brjóta gegn reglum um umferðarrétt, hunsa fyrirmæli umferðarmerkja um hámarkshraða, biðskyldu og stöðvunarskyldu og fyrir að tala í farsíma undir stýri.