Umferðarslys eru alþjóðlegur sjúkdómur

The image “http://www.fib.is/myndir/Schumi.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Michael Schumacher

Þriðju hverja mínútu deyr barn einhversstaðar í heiminum í umferðarslysi. Dauðaslys í umferðinni í fátækari ríkjum heimsins eru talin munu vaxa um 80% fram til ársins 2020 verði ekkert að gert. Umferðarslys eru algengasta dánarorsök ungs fólks í Evrópu og Bandaríkjunum. Aðeins eyðni/alnæmi drepur fleiri unga menn í heiminum. Umferðarslys eru á heimsvísu dánarvaldur á borð við sjúkdómana malaríu og berkla.

Þetta kemur fram í bæklingi sem Michael Schumacher, mesta kappaksturshetja allra tíma hefur ritað. Bæklingurinn er gefinn út í tengslum við nýjasta umferðarátak alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga og bílasports, FIA. Átakið nefnist Make Roads Safe (Gerum vegi örugga). Framkvæmdastjóri átaksins er Lord Robertson of Port Ellen, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og framkvæmdastjóri NATO.

Á hverjum einasta degi látast 3000 manns í umferðarslysum í heiminum og 500 börn að auki. Þetta þýðir samanlagt að 1,2 milljónir mannslífa týnast á hverju ári í umferðarslysum og 50 milljónir slasast. Yfir 85% þessara slysa eiga sér stað í löndum sem skilgreind eru sem lág- og miðlungstekjulönd.

Í ljósi þess hve mikla heilsuvá er hér um að ræða gegnir það furðu hversu stjórnvöld og fjölmiðlar hafa verið áhugalítil um umferðaröryggi. Framlög opinberra aðila á alþjóðavísu eru einungis örlítið brot af framlögum þeirra til baráttu gegn faraldurssjúkdómum. En til að mörg markmið Sameinuðu þjóðanna í þróunarmálum náist, ekki síst það að útrýma hungri og fátækt, verður alþjóðasamfélagið að ná tökum á þessari heilsuvá. Ella verða þessar áætlanir allar orðin tóm og hjóm eitt.

„Við vonum að leiðtogar G8 ríkjanna muni taka umferðaröryggismál á dagskrá næsta leiðtogafundar síns sem haldinn verður í Þýskalandi í júlí 2007. 500 börn deyja á hverjum einasta degi og þúsundir slasast eða örkumlast í heiminum. Það er ástæða þess að ég styð átakið Make Roads Safe (Gerum vegi örugga)“, segir Michael Schumacher í lok bæklingsins.
Bæklinginn Make Roads Safe (Gerum vegi örugga) er að finna hérna.