Umferðarslysin eru heimsfaraldur
29.11.2007
Saul Billingsley ásamt Desmund Tutu erkibiskupi. Skráning á umferðarráðstefnu FÍB hér.
-Umferðarslys eru heimsfaraldur. Árlega missir 1,2 milljón manna lífið í umferðarslysum í heiminum og 50 milljónir manna slasast. Umferðarslys eru nú meginorsök ótímabærs dauða barna og ungs fólks á aldrinum 10-24 ára. Við verðum að bregðast við þessari vá sem æðir um heiminn með vaxandi afli - þessum faraldri sem stjórnvöld ríkja og alþjóðasamfélagið láta að mestu afskiptalausan.-
Þetta eru orð Lord Robertson of Port Ellen, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og framkvæmdastjóra NATO og núverandi stjórnanda alþjóðaverkefnisins Make Roads Safe.
Einn frumkvöðla átaksins Make Roads Safe og samstarfsmaður Lord Robertson, Saul Billingsley er einn framsögumanna á umferðaröryggisráðstefnu FÍB á morgun, föstudag sem haldin er í tengslum við 75 ára landsþing FÍB. Í erindi sínu mun Billingsley fjalla um umferðarslysafaraldurinn og ógnvænlegar afleiðingar hans fyrir samfélög og þjóðir, ekki síst þróunarríkin, og um leiðir til að bregðast við vandanum.
Íslendingar fara ekki varhluta af þessum faraldri. Í fyrra og það sem af er þessu ári hafa 44 manns farist í umferðarslysum hér á landi. Það samsvarar því að flugslys hefði orðið í innanlandsflugi og Fokker 50 flugvél, nánast fullsetin, hefði farist og allir sem í henni voru látið lífið.
Miðað við umfang umferðarslysafaraldursins á Íslandi sem og annarsstaðar í heiminum, er tómlæti gagnvart þessum málum sérkennilegt. Það væri heimsfrétt ef fullsetin Fokker flugvél færist annað hvert ár á Íslandi en það er engin heimsfrétt að á fimmta tug fólks farist á tveimur árum. Er ástandið óviðráðanlegt eða eru til ráð sem duga gegn þessari miklu vá?
Um þetta mun Saul Billingsley m.a. fjalla á ráðstefnu FÍB í Eldborg við Bláa lónið á morgun. Ráðstefnan hefst kl. 14.00 og er öllum opin og aðgangur er ókeypis. Hægt er að skrá sig fram til kl. 16.30 í dag á fib@fib.is