Umferðarslysin eru heimsfaraldur og heilsufarsvá
Sameinuðu þjóðirnar eru nauðbeygðar til að takast af alvöru á við stöðugt vaxandi dauðsföll í heiminum af völdum umferðarslysa. Þetta er mat FIA – heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga. Samtökin hafa ýtt úr vör alheimsátakinu Make Roads Safe og er framkvæmdastjóri þess Lord Robertson. Átakinu eða verkefninu er ekki síst ætlað að opna augu valda- og áhrifamanna hvarvetna í heiminum fyrir umferðarslysavánni og fá þá til að skilja nauðsyn þess að grípa tafarlaust til aðgerða.
Fyrir tilstilli Make Roads Safe verkefnisins er umferðarslysafaraldurinn nú kominn á dagskrá hjá G8 ríkjunum og voru til umfjöllunar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sl. mánudag, þann 31. spríl. Þar samþykkti allsherjarþingið að halda sérstakan fund æðstu manna í Rússlandi 2009 þar sem umferðarslysafaraldurinn verður eina málið á dagskrá.
Það er Max Mosley forseti FIA sem frumkvæðið átti að Make Roads Safe – verkefninu á sama hátt og hann átti frumkvæði að verkefnunum Euro NCAP og EuroRAP, sem bæði hafa þann tilgang að gera umferðina öruggari. Öll þessi verkefni eru í höndum bifreiðaegendafélaga í hverju landi um sig. Á íslandi eru þau þannig á forræði FÍB. Max Mosley ávarpaði allsherjarþing SÞ á mánudag og sagði m.a: „Bifreiðaeigendafélögin um allan heim hafa stutt Make Roads Safe herferðina dyggilega. Fyrir þeirra tilstilli hefur safnast ein milljón undirskrifta til stðnings átakinu sem hafa verið afhentar Ban Ki-moon aðalritara SÞ. Þær staðfesta þungar áhyggjur almennings yfir sífjölgandi dauðsföllum í umferðinni í heiminum. En verki okkar er hvergi nærri lokið og FIA hyggst taka fullan þátt í viðvarandi alheimsátaki gegn umferðardauðanum.“
Lord Robertson fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og framkvæmdastjóri NATO og núverandi framkvæmdastjóri Make Roads Safe verkefnisins ávarpaði einnig allsherjarþingið og sagði; „Umræðan hér í dag getur markað tímamót – tímamótin þegar alheimssamfélagið byrjaði að horfa til þjáninganna, sorgarinnar og kostnaðarins af umferðarslysunum og ákvað að byrja á því að enda þetta ástand. Það er í okkar valdi að láta það gerast. Við ráðum sameiginlega yfir þeim verkfærum sem til þarf og við höfum aflið. Við verðum að taka til óspilltra málanna.“
Umferðarslys eru megin dánarorsök ungs fólks á aldrinum 10-24 ára í heiminum í dag. Samtals deyr árlega yfir 1,2 milljón mans í umferðarslysum í heiminum og yfir 50 milljón manns slasast. Slysunum fer ört fjölgandi og verði ekkert að gert er því spáð að yfir 20 milljón mannslíf glatist á tímabilinu 2000-2015. Því er spáð að sú dánartala eigi eftir að tvöfaldast frá árinu 2030.
Efri myndin er frá undirritun stofnskrár og stofnyfirlýsingar Make Roads Safe verkefnisins, eða Gerum vegina örugga, í Barcelona sumarið 2006. Neðri myndin er af þeim fulltrúum bifreiðaeigendafélaga sem sóttu stofnfundinn. Þrír fulltrúar FÍB sátu fundinn og eru þeir ofarlega til hægri á myndinni. Þeir voru Árni Sigfússon þáverandi formaður, Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður og Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri.