Umferðarþunginn er mestur á föstudögum
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í maí jókst um 4,7 prósent sem er mun meiri aukning en varð í sama mánuði fyrir ári síðan. En frá áramótum hefur umferðin aukist um 1,7 prósent sem er minni aukning en árið áður.
Nýtt met var slegið í umferð í maí samkvæmt þremur lykil mælisniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu en þá mældist 4,7% aukning í umferð á stofnbrautum svæðisins milli maí 2018 og maí 2019. Þetta er mun meiri aukning en varð á síðasta ári í sama mánuði en þá jókst umferðin um 2,6% miðað við árið þar á undan (2017). Mest jókst umferðin í mælisniði ofan Ártúnsbrekku eða um 6,9% en minnst jókst umferðin á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk eða um 1,9%.
Núna hefur umferðin vaxið um 1,7% frá ármótum, samtals í umræddum mælisniðum. Þetta er mun minni vöxtur nú í ár miðað við sama árstíma á síðasta ári en þá hafði umferðin aukist um 3,1% frá áramótum miðað við árið þar á undan (2017).
Í síðasta mánuði var mest ekið á föstudögum en eins og ávallt minnst á sunnudögum. En hlutfallslega jókst umferðin mest á sunnudögum eða um 10,7% en 4,2% samdráttur varð í umferð á miðvikudögum, miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Nú spáir reiknilíkan Vegagerðarinnar 4,8% aukningu í umferð á stofnbrautum höfuðrborgarsvæðisins en ef marka má hagvaxtaspár og fylgni milli hagvaxtar og umferðar telur umferðardeild ósennilegt að aukningin verði svo mikil.