Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst í febrúar
Ólíkt Hringveginum þá jókst umferðin á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Hún jókst þó minna en undanfarna mánuði eða um tæp þrjú prósent. Alls fóru 155 þúsund ökutæki á hverjum sólarhring um þrjú mælisvið Vegagerðarinnar og hafa þá aldrei verið fleiri.
Áætlað er að umferð hafi aukist um tæp 3% milli febrúarmánaða 2017 og 2018. Þó þetta sé ekki mikil aukning miðað við undafarna mánuði er hún mun meiri en úti á Hringvegi þar sem samdráttur varð. Áætlað er að aldrei hafi fleiri bílar farið um lykilsniðin þrjú í febrúar, eða 155 þúsund ökutæki á sólarhring.
Nú er áætlað að umferð hafi aukist um 3,7% fyrir lykilsniðin þrjú miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er helmingi minni aukning en átt hafði sér stað á sama tíma á síðasta ári.
Umferð jókst í öllum vikudögum nema sunnudögum en þar mældist 2% samdráttur. Mest jókst umferðin á miðvikudögum en fimmtudagar voru umferðarmestir og sunnudagar umferðarminnstir. Það má ganga út frá því sem gefnu, miðað við umferðarmælingar, að sunnudagar séu ætíð umferðarminnstir allra vikudaga á höfuðborgarsvæðinu.
Áætlaðar horfur geta breyst mikið í upphafi hvers árs en þar getur tíðarfarið spilað inní. Nú er gert ráð fyrir að umferð gæti aukist um 2-4% árið 2018 en þetta skýrist betur eftir því sem líður á árið.