Umferðin á Hringvegi eykst áfram
Umferðin í nýliðnum maí á Hringveginum jókst um 2,3 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 10 prósent og útlit er fyrir að umferðin í ár aukist jafn mikið. Þetta er mjög mikil aukning. Umferðin í maí hefur aldrei verið meiri að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin jókst um 2,3% milli maí mánaða árin 2022 og 2023, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi. Þessi aukning varð til þess að nýtt umferðarmet var slegið í maí mánuði, en fyrra met var frá síðasta ári. Umferð jókst á öllum svæðum, nema við höfuðborgarsvæðið, og mest um Norðurland.
Af einstaka stöðum jókst umferð mest um mælisnið á Möðrudalsöræfum eða um 23,1%, sjónarmun meira en um mælisnið á Mýrdalssandi. Nú hefur umferð aukist um 10%, frá áramótum, sem er um þrisvar sinnum meira en meðaltalsaukning, miðað við árstíma, frá árinu 2005.
Í tölunum kemur ennfremur fram að umferð hefur aukist í öllum vikudögum en mest á mánudögum eða um 15,8% og minnst á sunnudögum eða um 2,7%. Hlutfallslega hefur umferð aukist um 10,9% á virkum dögum en um 8,2% um helgar. Þetta gæti gefið vísbendingu um aukin umsvif.