Umferðin á Hringveginum jókst árið 2019
Umferðin í desember á Hringveginum dróst saman um eitt prósent miðað við umferðina í desember árið áður. Í heild jókst umferðin á Hringvegi árið 2019 um 2,4 prósent sem er mun minni aukning en undanfarin ár þegar umferðin hefur aukist árlega um þetta 5 - 14 prósent.
Eftir því sem fram kemur í tölum frá Vegagerðinni dróst umferðin í nýliðnum desember saman um 1% miðað við árið þar á undan, yfir 16 lykilteljara á Hringvegi. Mest dróst umferðin saman um Norðurland eða um 8,2%. Umferðin jókst hins vegar aðeins í tveimur landssvæðum eða yfir teljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið en þar jókst umferðin um 1,4% og um Vesturland um 0,2%.
Trúlega stafar þessi samdráttur af, að stórum hluta, vondu veðri í desember á síðasta ári.
Þegar árið liggur fyrir þá mældist samdráttur í þremur mánuðum, miðað við árið á undan, eða í mars, september og desember. Mest jókst umferðin í febrúar eða um 15,8% en mestur samdráttur varð í mars eða 4,1% samdráttur.
Þegar árið er gert upp í heild hefur umferðin um lykilsniðin 16 aukist um 2,4%. Samdráttur varð á tveimur landssvæðum eða um Austurland 2,3% og Suðurland 1,5%. Mest jókst umferðin, hins vegar, um Vesturland eða um 5,2%.
Eins og vænta mátti var mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum. Umferðin jókst alla vikudaga miðað við árið á undan, hlutfallslega mest á sunnudögum eða 4,3% en minnst á miðvikudögum eða 0,9%.