Minni umferð á Hringveginum

Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum dróst saman um 1,4 prósent í júní mánuði. Líklegt verður að telja að slæmt veður í upphafi mánaðar gæti hafa haft áhrif á umferðina. Þótt ekki hafi verið slegið met í júní má reikna með að umferðin í ár aukist um nærri fimm prósent.

Að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni mældist talsvert minni umferð í nýliðnum júní miðað við það sem búast hefði mátt við, þegar horft er til umferðar það sem af er ári. Umferðin í júní dróst saman um 1,4% miðað við sama mánuð á síðasta ári.

Það varð því ekkert umferðarmet slegið, þann mánuðinn. Helsta ástæða þessa samdráttar er hugsanlega sú að slæm tíð var í upphafi mánaðarins. Ekki lágu fyrir gögn frá ferðamálastofu um fjölda brottfara erlendra ferðamann frá Leifsstöð í júní, þegar þetta var tekið saman.

Umferð jókst lítillega um Suðurland og í kringum höfuðborgarsvæðið en dróst talsvert saman á öðrum svæðum. Mest dróst umferð saman um mælisnið á Austurlandi eða um 15,5%, sem telja verður gríðar mikinn samdrátt.

Á það ber að líta að umferð um mælisnið á Austurlandi vega minnst í heildarumferð lykilteljara. Mesti einstaki samdrátturinn varð um Möðrudalsöræfi en þar mældist tæplega 17% samdráttur.