Umferðin er létt í Kaupmannahöfn
Kaupmannahafnarbúar hafa margir þá bjargföstu trú að bílaumferð þar sé óhemju mikil og þrengsli og umferðarhnútar skelfilegir. Til að stemma stigu við hinum meinta ófremdarástandi af völdum bílaumferðar sjá ýmsir, þeirra á meðal lands- og borgaryfirvöld þann kost skástan að hindra bílaumferð sem allra mest m.a. með því að hafa bílastæði bæði fá og dýr og það nýjasta í þessu er svo að innheimta tolla af þeim sem hætta sér á bíl inn í borgina.
Nú hefur hinn hollenski framleiðandi Tom Tom leiðsögutækja greint talsvert nákvæmlega umferðarþunga í norrænum borgum, þó að Reykjavík undanskilinni. Niðurstaðan er sú að umferðin í Kaupmannahöfn sé alls ekki svo þung. Á mestu annatímum að morgni og síðdegis geta vissulega myndast langar bílaraðir sem nokkurn tíma tekur að greiðast úr. Ástandið getur þó alls ekki talist slæmt og reyndar ósköp svipað og var fyrir einu og hálfu ári. Og það sem meira er: Það er langtum betra en í t.d. Stokkhólmi og Osló sem þó hafa fyrir löngu tekið upp vegatolla á bíla sem aka inn fyrir tiltekin mörk umhverfis miðborgirnar.
Stokkhólmur og Oslo eru í sérflokki norænna borga hvað varðar umferðarþrengsli á daginn. Umferðartappar í Stokkhólmi eru að meðaltali á 31,4 prósentum gatnakerfisins og á 28,4 prósentum gatnakerfisins í Osló. Í Kaupmannahöfn er þessi prósenta helmingi lægri eða 13,9 prósent og ennþá minni í Helsinki í Finnlandi – 11 prósent.
Í það heila tekið hefur Tom Tom greint umferðina í 16 norrænum borgum með 50 þúsund íbúa eða fleiri. Mælingarnar fara þannig fram að leiðsögutæki af gerðinni HD-Traffic sem eru í hundruðum bíla, senda sjálfvirkt frá sér upplýsingar um staðsetningu og ökuhraða á hverjum tíma. Einskonar aðaltölva Tom Tom í Hollandi vinnur svo úr þessum gögnum frá leiðsögutækjunum og gerir m.a. mögulegt að senda ökumönnunum upplýsingar um ferðatíma og aðrar greiðari leiðir framhjá umferðarhnútunum.