Umferðin eykst á Hringvegi
Umferðin á Hrinvegi í nýliðnum maímánuði jókst um 8,4 prósent frá því í maí í fyrra sem er þó ekki jafnmikið og hún hafði dregist saman í þeim hinum sama maí fyrir ári síðan. Útlit er fyrir að í ár geti umferðin aukist um átta prósent en yrði eigi að síður um sex prósentum minni en árið 2019, sem reyndar var metár að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin yfir 16 lykilteljarasnið Vegagerðarinnar á Hringvegi reyndist 8,4% meiri en í sama mánuði á síðasta ári. Það verður hins vegar að hafa í huga að umferðin dróst saman um rúmlega 10% í maí mánuði á síðasta ári, vegna Covid-faraldursins.
Umferðin jókst mest yfir teljara á Austurlandi eða um rúmlega 23%, en á síðasta ári hafði orðið tæplega 40% samdráttur á Austurlandi í sama mánuði. Minnst jókst umferð yfir lykilteljarasnið á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 5%. Af einstökum mælisniðum þá jókstu umferð mest yfir mælisnið á Mýrdalssandi eða um rétt rúmlega 50%.
Staðan frá áramótum
Nú hefur umferð aukist um rúmlega 12% frá áramótum en á sama tíma á síðasta ári hafði safnast upp 15,5% samdráttur.
Umferð hefur aukist í öllum vikudögum, frá áramótum, en mest á sunnudögum eða um rúmlega 20% en minnst hefur umferðin aukist á miðviku- og fimmtudögum eða um tæp 8%.