Umferðin hefur aukist um Suðurland
Umferðin í nýliðnum október á Hringveginum jókst um 3 prósent sem er minnsta aukning í október síðan árið 2012. Þrátt fyrir það er útlit fyrir að í ár aukist umferðin á Hringveginum að jafnaði um 4,5 prósent. Mest hefur hún í ár aukist um Suðurland eða um tæp 8 prósent en minnst um Norðurland eða um 2 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin í nýliðnum mánuði jókst, að jafnaði, um 3% yfir 16 lykilteljara á Hringvegi. Er þetta minnsta aukning í októbermánuði síðan árið 2012. Mest jókst umferðin yfir teljarasnið á Austurlandi eða um rúmlega 8% en athygli vekur að talsverður samdráttur varð í sniðum á Norðurlandi eða rúmlega 4%.
Mest jókst umferðin yfir teljarasnið í Lóni á Austurlandi eða tæp 17% en fáséður samdráttur varð yfir öll teljarasnið á Norðurlandi og mest yfir Mývatnsheiði eða tæplega 11% samdráttur.
Nú hefur umferðin aukist að jafnaði um 4,2% á ári frá árinu 2005. 3% aukning er því talsvert undir meðalaukningu á umræddu tímabili.
Nú hefur umferðin aukist um 4,3% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Mest hefur aukningin orðið á Suðurlandi eða um 7,7% en minnst um Norðurland eða um 2,0%. Líkt og milli mánaða hefur ekki minni aukning mælst miðað við árstíma síðan árið 2012.
Umferðin hefur aukist í öllum vikudögum nema sunnudögum en þar mælist 1,2% samdráttur. Mest hefur hlutfallsleg aukning orðið í umferð á mánudögum eða 5,8% aukning. Mest er ekið á föstudögum og minnst á þriðjudögum.
Miðað við það sem liðið er af árinu 2018 eru sterkar líkur á að aukning umferðar um Hringveginn verði að jafnaði í kringum 4,5% borið saman við árið 2017.