Umferðin í maí á Mýrdalssandi dróst saman um 70%
Umferðin á Hringveginum í maí dróst saman um ríflega 10 prósent sem er gríðarlegur samdráttur. Enn meiri samdráttur er frá áramótum en umferðin fyrstu fimm mánuði ársins er 15,5 prósentum minni en í sömu mánuðum í fyrra og hefur aldrei áður mælst jafn mikill samdráttur á þessum árstíma. Samdrátturinn er mestur á Austurlandi og á ferðamannaleiðum en á Mýrdalssandi dróst umferðin saman um nærri 70 prósent í maí. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni.
Milli mánaða 2019 og 2020
Umferðin, yfir 16 lykilteljara á Hringvegi, dróst saman um 10,3% í maí sl. miðað við sama mánuð á síðasta ári. Leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna minni umferð í maí.
Umferðin dregst saman á öllum landssvæðum en mest á Austurlandi eða um tæp 40% en minnst á talningastöðum á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 3%.
Af einstaka stöðum er mestur samdráttur á Mýrdalssandi eða tæplega 69% en minnstur um mælisnið á Hringvegi við Úlfarsfell eða 2%.
Frá áramótum
Nú hefur umferðin á Hringvegi, í umræddum mælisniðum, dregist saman um 15,5% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Aldrei áður hefur viðlíka samdráttur mælst frá því að Vegagerðin hóf að birta þessa samantekt. Þetta er tæplega tvöfalt meiri samdráttur en áður hefur mælst, miðað við árstíma.
Mest hefur umferð dregist saman á Austurlandi eða um tæp 40% en minnst við höfuðborgarsvæðið eða um rúmlega 8%.
Umferð eftir vikudögum
Eins og geta má nærri hefur umferð dregist saman í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á sunnudögum eða um tæp 24% en minnst á þriðjudögum eða um rúmlega 13%